Fara í efni

Fyrsti kennsludagur - um 1170 nemendur í dagskóla

Nemendur sóttu stundaskrár sínar í skólann í gær.
Nemendur sóttu stundaskrár sínar í skólann í gær.

Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá í VMA í dag. Nemendur komu í skólann í gær og fengu afhentar stundaskrár og kennsla hefst síðan af fullum krafti í dag. Við upphaf haustannar eru skráðir 1166 nemendur í skólann. Þar við bætast fjarnemar en skráning í fjarnám hefur staðið yfir síðustu daga og liggur heildarfjöldi fjarnema því ekki fyrir.

Nýnemar sem hefja nám í VMA núna á haustönn – þ.e. þeir sem koma beint úr grunnskóla – eru 210 talsins. Þá eru innritaðir 102 nemendur sem hafa verið í öðrum skólum og 127 nemendur eru endurinnritaðir, þ.e. nemendur sem eru að koma til baka til að ljúka námi, t.d. eftir að hafa verið á samningi, samkvæmt upplýsingum Benedikts Barðasonar, áfangastjóra VMA. Þá nefndi hann að boðað verði upp á lotunám á kvöldin og um helgar fyrir matartækna og pípulagningamenn.  

Eins og á síðasta skólaári er mikil aðsókn í grunndeild rafiðna og grunndeild málm- og véltæknigreina og biðlisti á báðum brautum. Þá er metaðsókn á nýja íþróttabraut og mjög góð aðsókn á nýjar náttúruvísinda og félagsvísindabrautir.

Eins og vera ber var létt yfir nemendum þegar þeir sóttu stundaskrár sínar fyrir haustönnina í skólann í gær. Hilmar Friðjónsson tók þessar myndir af því tilefni.

Það er óhætt að segja að við upphaf þessarar haustannar séu ákveðin tímamót hjá VMA þegar skólinn tekur upp nýja námskrá sem byggir á aðalnámskrá framhaldsskóla frá 2011. Stúdentsprófsbrautir eru nú í fyrsta skipti settar upp sem þriggja ára nám. Hér má sjá uppsetningu námsbrautanna.