Fara í efni

Á leið á heimsmeistaramót í skák

Jón Kristinn Þorgeirsson.
Jón Kristinn Þorgeirsson.

Þó svo að Jón Kristinn Þorgeirsson, nemandi á fyrsta ári í VMA, sé ungur að árum – einungis sextán ára gamall – er hann búinn að vinna marga og stóra titla við skákborðið. Og nú er hann á leið á sitt fyrsta heimsmeistaramót ungmenna 16 ára og yngri í skák, sem fram fer í Porto Carras í Grikklandi. Mótið hefst nk. sunnudag og stendur í um hálfan mánuð.

Jón Kristinn byrjaði að tefla níu ára gamall og segir hann að pabbi hans hafi vakið áhuga hans á skákinni. Fljótlega fann Jón Kristinn að þessi íþrótt átti vel við hann og ekki leið á löngu þar til pabbi hans varð að játa sig sigraðan við skákborðið. Og nú er Jón Kristinn bæði ríkjandi Skákmeistari Akureyrar og Skákmeistari Norðendinga. Á Skákþingi Norðlendinga nýverið sigraði Jón Kristinn m.a. tvo alþjóðlega meistara og með því þokaði hann sér hærra á styrkleiklista skákmanna. Sem stendur er hann með sem næst 2285 ELO-stig en til þess að ná svoköllum FIDE-titli þarf hann að fara yfir 3000 stig. Takmark Jóns Kristins er að ná því á heimsmeistaramótinu í Grikklandi.

Ásamt Jóni Kristni fer félagi hans frá Akureyri, MA-ingurinn Símon Þórhallsson, einnig á heimsmeistaramótið en í það heila verða milli tíu og tuttugu ungir og efnilegir skákmenn sem tefla fyrir Íslands hönd í Grikklandi.

„Ég hef teflt á bæði Evrópu- og Norðurlandamóti en þetta verður mitt fyrsta heimsmeistaramót. Það kemur ekki í ljós fyrr en á mótsstað hvaða skákmönnum ég mæti en líklega verða skákirnar ellefu talsins. Þetta leggst bara vel í mig. Ég hef svo sem ekki æft meira fyrir þetta mót en önnur. Ég reyni að halda mér í formi með því að æfa hjá Skákfélagi Akureyrar, nýta mér netið og síðan að tefla á mótum. Síðast tefldi ég í sveit Skákfélags Akureyrar á Íslandsmóti skákfélaga og fékk þar 2,5 vinninga af 5 mögulegum sem ég er ágætlega sáttur við. Ég held að við séum í þriðja sæti eftir fyrri hluta keppninnar sem er bara mjög gott,“ segir Jón Kristinn.

Framundan er sem sagt mikil törn í Grikklandi hjá þessum bráðefnilega skákmanni. En hann segist hvergi banginn og er harðákveðinn í því að standa sig vel. Takmarkið er að ná FIDE-titinum og það telur Jón Kristinn raunhæft markmið.  „Ég ætla mér að ná langt í skákinni og það er ekkert launungarmál að ég stefni á stórmeistaratitil síðar,“ segir Jón Kristinn.

Þátttöku sína í heimsmeistaramótinu kostar hann  sjálfur að hluta en nýtur einnig stuðnings frá Skáksambandi Íslands og Skákfélagi Akureyrar.