Fara í efni

Jóga gefur mér mikið

Sigríður Björk Hafstað.
Sigríður Björk Hafstað.

Án nokkurs vafa er Sigríður Björk Hafstað, sem verður nítján ára í sumar, í hópi yngstu jógakennara á Íslandi. Hún hóf að læra jóga hjá Ástu Arnardóttur sumarið 2017 og náminu lauk hún í fyrra. Hún grípur í jógakennslu samhliða námi sínu í VMA þar sem hún stundar nám til stúdentsprófs á listnámsbraut.

Sigríður Björk fæddist í Reykjavík og fluttist síðan með móður sinni til Danmerkur, þar sem hún var við nám, og þar bjuggu þær á árunum 2010-2012. Þegar heim til Íslands var komið lá leiðin norður í Svarfaðardal, á æskustöðvar Unnar, móður Sigríðar Bjarkar, sem fæddist þar og ólst upp. Þar hafa þær mæðgur búið síðustu ár á Böggvisstöðum, skammt sunnan Dalvíkur. Unnur kennir raungreinar í Menntaskólanum á Tröllaskaga og Sigríður Björk var í grunnskóla á Dalvík en síðan lá leiðin í VMA. Fór fyrst á matvælabraut og lauk þar grunndeildinni veturinn 2016-2017 en færði sig á listnámsbraut og stefnir á að ljúka stúdentsprófi af henni að rúmu ári liðnu. Hvað síðan verður segir hún að verði að koma í ljós en ýmislegt heilli, t.d. íþróttakennsla eða að læra söng í Listaháskólanum. Söngurinn hefur lengi heillað og það kom heldur betur í ljós í Sturtuhausnum – Söngkeppni VMA í vetur að Sigríður Björk hefur hæfileika á því sviði. Hún söng þar lagið Holding On To You  með Twenty on Pilots með glæsibrag.

Áhuginn á jóga segir Sigríður Björk að hafi byrjað þegar hún var að ljúka 10. bekk Dalvíkurskóla. Málin æxluðust þannig að í júní 2017 hófu þær mæðgur saman í nám í jóga hjá Ástu Arnardóttur og hófst það á tíu daga samveru nemenda og kennara í Skálholti. Námið hélt síðan áfram veturinn 2017-2018 og fóru þær mæðgur suður yfir heiðar eina helgi í mánuði og voru í námslotum þar sem farið var í anatómíu, ýmislegt er varðar jóga og kennslufræði.

Sigríður Björk dregur ekki dul á að jógað hafi hjálpað sér mikið í sínu daglega lífi og eftir á að hyggja hafi það gert henni gott að læra þetta svo ung að árum. Hún býr á Böggvisstöðum og ekur því daglega til Akureyrar í skóla. Engu að síður gefur hún sér tíma áður en hún leggur af stað, að morgni dags, til þess að tileinka sér jógaslökun.

Þær mæðgur, Unnur og Sigríður Björk, hafa boðið upp á jógatíma á Böggvisstöðum og hafa þær skipt með sér verkum á þann veg að Unnur er meira með slökunarjóga en Sigríður Björk líkamlegt jóga. „Það má segja að núvitund sé mín heimspeki, að vera í núinu og njóta stundarinnar í stað þess að velta því of mikið fyrir mér hvað bíður mín á næstu klukkutímum, dögum eða mánuðum. „Jógað hefur án nokkurs vafa hjálpað mér og ég fæ mikið út úr því,“ segir Sigríður Björk en hún bauð upp á jóga fyrir samnemendur sína í heilsuviku VMA fyrr í þessum mánuði.