Fara í efni

JE vélaverkstæði gefur VMA öfluga plasma-skurðarvél

Nemendur og kennarar læra á skurðarvélina.
Nemendur og kennarar læra á skurðarvélina.

JE vélaverkstæði á Siglufirði hefur fært málmiðnaðarbraut VMA að gjöf plasma-skurðarvél og var starfsmaður fyrirtækisins í VMA í gær til þess að kenna kennurum og nemendum á vélina. Þetta er afar höfðingleg gjöf og ómetanlegt fyrir skólann að fá slíkan stuðning fyrirtækis í greininni, segir Hörður Óskarsson, brautarstjóri málmiðngreina í VMA og undir það taka aðrir kennarar við málmiðnaðarbraut VMA og vilja koma á framfæri innilegu þakklæti til eigenda JE vélaverkstæðis.

Þessa plasma-skurðarvél fékk JE vélaverkstæði haustið 2016 og reyndist hún afar vel. Á síðasta ári ákvað fyrirtækið að kaupa nýja vél, í grunninn eins og þá eldri, en hún getur skorið stærri plötur. Fyrirtækið hefði getað selt tveggja ára gömlu vélina fyrir um tvær milljónir króna en Guðni Sigtryggsson, framkvæmdastjóri JE vélaverkstæðis, vildi frekar gefa hana til VMA í því skyni að efla kennslu og þjálfa nemendur í málmsmíði í VMA til þess að nota þessa tækni. Hann hafði því samband við málmiðnaðarbraut VMA og fóru kennarar deildarinnar til Siglufjarðar í kjölfarið og var ákveðið að þiggja gjöfina með þökkum. Vélin kom síðan til Akureyrar 19. nóvember sl. og í gær var Ingvar Erlingsson, starfsmaður hjá JE vélaverkstæði, í VMA að kenna kennurum og nemendum á vélina.

Ingvar hefur unnið mikið á plasma-skurðarvélarnar hjá JE vélaverkstæði og orðar hann það svo að með þessari tækni hafi verið tekið stórt framfaraspor. „Það má alveg orða það svo að með þessari vél höfum við komið okkur inn í nútímann,“ segir Ingvar. „Ég hugsa að menn átti sig ekki á því fyrr en þeir fara að nota slíka vél hvaða möguleika hún býður upp og hversu gríðarlega mikinn tíma hún sparar.“

Plasma-skurðarvélin er tengd við tölvu sem hefur ekki ósvipað viðmót og venjulegar pc-tölvur. Tölvan keyrir mismunandi forrit og möguleikarnir eru margir. Það sem áður tók mannshöndina langan tíma að gera tekur vélina aðeins örstund að klára. Vinnu- og tímasparnaðurinn er því ótvíræður og nákvæmnin meiri.

Það mátti heyra á kennurum málmiðnaðarbrautar í gær að skurðarvélin opnaði marga nýja möguleika í kennslu, afar mikilvægt væri að gefa lengra komnum nemendum tækifæri til að tileinka sér bestu mögulegu tækni á þessu svið, sem öll stærri málmfyrirtæki hefðu þegar tekið í sína þjónustu.

Jón Þór Sigurðsson, sem veitir FabLab Akureyri forstöðu, verður kennurum og nemendum á málmiðnaðarbraut til aðstoðar við að læra á vélina enda er ýmislegt í þessari tækni sem Jón Þór kannast við úr FabLab smiðjunni og hann segir að vélin komi einnig til með að nýtast henni mjög vel.

Plasma-skurðarvélinni hefur verið komið haganlega fyrir í húsnæði málmiðnaðarbrautar og strax í gær prófuðu nemendur vélina og nutu leiðsagnar Ingvars Erlingssonar.

Guðni Sigtryggsson, framkvæmdastjóri JE vélaverkstæðis, sem á fyrirtækið á móti Gunnari Júlíussyni, segir afar ánægjulegt að vélin komi að góðum notum í VMA. „Við hefðum vissulega getað selt hana fyrir um tvær milljónir króna en ég vildi frekar láta málmiðnaðarbrautina í VMA fá hana til að nota við kennslu. Sjálfur var ég í Vélskólanum á Akureyri og síðar Vélskólanum í Reykjavík og Iðnskólanum í Hafnarfirði á níunda áratugnum. Á þeim tíma fannst mér skorta að skólarnir væru búnir nýjasta tækjabúnaði þess tíma og því vantaði okkur nemendurna ákveðna kunnáttu þegar út í atvinnulífið var komið. Þegar ég hugsaði málið fannst mér að VMA þyrfti á þessari skurðarvél að halda og ég taldi rétt að styðja við námið á málmiðnaðarbrautinni með þessum hætti. Ég veit að þar er unnið mjög gott starf og nemendum er fylgt vel eftir í náminu og út í atvinnulífið. Málmiðnaðarbrautin hefur verið að skila góðum nemendum og mér fannst einfaldlega að skólinn ætti þennan stuðning skilinn, ég er ánægður með að geta lagt mitt af mörkum með þessum hætti. Ég vonast til þess að vélin komi að góðum notum í náminu og það er mín ósk að hún verði óspart notuð því það er lítið gagn af slíkri vél ef hún er ekki notuð,“ segir Guðni.

Á sínum tíma þegar byrjað var að tala um fjórðu iðnbyltinguna sagðist Guðni hafa gert lítið úr henni en fljótlega skipt um skoðun. Til þess að geta verið samkeppnishæf verði fyrirtæki í málmiðnaði, eins og í öðrum atvinnugreinum, að nýta sér nýjustu tækni. Með notkun slíks tæknibúnaðar sé raunhæft að ætla að unnt sé að bjóða um fjórðungi lægra verð í verk en ella væri.

JE vélaverkstæði er rótgróið fyrirtæki á Siglufirði, hét áður Vélaverkstæði Jóns og Erlings. Hjá fyrirtækinu starfa níu starfsmenn í smíði og ýmsum viðgerðum og til viðbótar starfa fjórir við viðhald báta en til nokkurra ára smíðaði fyrirtækið plastbáta. Allt landið er undir hjá fyrirtækinu en stór hluti verkefna þess eru á Siglufirði, m.a. tengd sjávarútveginum og hjá nýsköpunarfyrirtækjunum Primex og Genis.