Fara í efni

Jákvæð teikn á lofti um listnám á háskólastigi á Akureyri

Þátttakendur í pallborði á málþinginu í gær.
Þátttakendur í pallborði á málþinginu í gær.

Bekkurinn var þétt setinn á málþingi um mögulegt listnám á háskólastigi á Akureyri, sem fram fór í Listasafninu á Akureyri í gær. Þar voru reifaðar ýmsar hliðar á háskólanámi í listum á Akureyri, sem lengi hefur verið talað um, ekki síst hafa myndlistarmenn og myndlistarkennarar á Akureyri haldið á lofti mikilvægi þess að boðið sé upp á slíkt nám í bænum.

Hér er sannarlega um að ræða málefni sem tengist VMA sterkum böndum vegna þess listnáms sem skólinn hefur lengið boðið upp á. Tengslin við skólann voru undirstrikuð með þátttöku Örnu Valsdóttur, myndlistarmanns og kennara við listnáms- hönnunarbraut VMA, og Benedikts Barðasonar, aðstoðarskólameistara VMA, í pallborði í lok málþingsins í gær.

En hvað kom svo út úr málþinginu? Jú, fyrst og fremst það að þetta mál er komið lengra en nokkru sinni áður og nú þegar hefur fyrsta skrefið verið stigið með samstarfi Háskólans á Akureyri og Listaháskóla Íslands um listakennslu í menntunarfræðum við HA. Samstarfið gengur vel og samkvæmt orðum Eyjólfs Guðmundssonar, rektors HA, og Fríðu Bjarkar Ingvarsdóttur, rekstors Listaháskólans, liggur beinast við að byggja ofan á þetta samstarf. Í lok síns erindis á málþinginu sagði Fríða Björk að ljóst væri að þörfin á listnámi á háskólastigi á Akureyri væri til staðar og hún myndi aukast með fólksfjölgun á Akureyri og nágrenni á næstu árum. Til staðar væru innviðir til listnáms í bænum og mikilvægt væri að nýta þær fjárfestingar betur. Fríða Björk sagði mikilvægt að móta framtíðarsýn í þessum efnum til næstu áratuga  og að áður en að haldið yrði af stað þyrfti að tryggja fjármögnun í námið.

Það kom skýrt fram hjá rektorum beggja skóla að mikilvægt væri að nýta vel þá fjarnámstækni sem til staðar væri til kennslu í listum á Akureyri en ekki síður væri mikilvægt að listnám á háskólastigi á Akureyri skapaði sér sérstöðu, leggja þyrfti áherslu á að þar yrði í boði nám sem ekki væri til staðar í Listháskólanum. Þannig tækist að breikka námsframboð í listum á háskólastigi í landinu.  

Arnar Þór Jóhannesson frá Rannsóknamiðstöð HA greindi frá fýsileikakönnun sem gerð var meðal framhaldsskólanema á síðasta ári um mögulegt listanám á háskólastigi á Akureyri. Könnunin náði til sautján framhaldsskóla á landinu og bárust 323 svör. Það kom ekki á óvart að áhuginn reyndist hvað mestur hjá nemendum í framhaldsskólum á Norðurlandi en það kom líka í ljós töluverður áhugi framhaldsskólanema á höfuðborgarsvæðinu á að stunda slíkt nám á Akureyri. Mestur reyndist áhuginn vera á myndlistarnámi en síðan kom grafísk hönnun og arkitektúr.