Fara í efni

Íþróttafélagið Haukur lætur til sín taka

Glæsileg tilþrif í Zumba!
Glæsileg tilþrif í Zumba!

Heilbrigð sál í hraustum líkama! Þetta eru sígild sannindi sem Íþróttafélagið Haukur – eða Haukurinn – hefur að leiðarljósi í starfi sínu. Þetta er sem sagt íþróttafélag sem hefur tekið til starfa innan veggja VMA og nú þegar hefur um þriðjungur starfsmanna skólans mætt á reglulegar æfingar þess.

Baldvin Ringsted, sjálfskipaður einvaldur félagsins, segir að félaginu hafi verið ýtt úr vör í viku 42 sem mun þá hafa verið fyrripart október sl. Reglulegar æfingar „Hauksins“ fara fram í íþróttasal skólans og nýta kennarar og annað starfsfólk sér þá prýðilegu aðstöðu og búnað sem þar er í boði. „Nafnið á félaginu er einfaldlega þannig til komið að Haukur Jónsson kennari reið á vaðið af okkur starfsmönnum í að nýta sér þessa fínu aðstöðu hérna og okkur þótti við hæfi að nefna félagið eftir honum. Hann er frumkvöðullinn. Þessi félagsskapur er framlag okkar starfsmanna í VMA til heilsueflandi framhaldsskóla,“ segir Baldvin einvaldur. Hann segir að félagsskapurinn sé óformlegur, þ.e. að ekki hafi komið til formlegrar stofnunar félagsins með tilheyrandi samþykktum.  „Ákvarðanatökur í félagsskapnum fara þannig fram að ég og einhver einn annar úr hópnum hittumst og komumst að niðurstöðu um meiriháttar mál. Svona virkar nú lýðræðið hjá okkur og þetta hefur gefist mjög vel,“ segir Baldvin. Hann hvetur þá  starfsmenn sem ekki hafa nú þegar látið sjá sig á æfingum að drífa sig í íþróttagallann og taka á því. „Sérstaklega vil ég skora á yfirstjórnina að mæta. Hún hefur ekki enn látið sjá sig og við söknum hennar mjög ,“ segir Baldvin.

Mætingar eru samviskusamlega skráðar og mæti liðsmenn ekki er engin elsku mamma, þeir fá hundrað krónu sekt fyrir hvert skróp. Þó svo að best sé auðvitað að fólk mæti á æfingar er það þó ekki albölvað því þá safnast vel í sektarsjóð og nú þegar er hann kominn yfir 20 þúsund krónur. Að óbreyttu gæti því stefnt í góða uppskeruhátíð í vor!

Auk venjubundinna æfinga þar sem félagar í Hauknum hlaupa á bretti, lyfta lóðum eða hamast í þrektækjunum eru einnig uppákomur, svona til að brjóta upp gráan hversdagsleikann. Þannig fengu félagsmenn í gær tilsögn í Zumba og þar sáust heldur betur tilþrif! Og eftir áramót er á stefnuskránni að fá einkaþjálfara einhvern tímann á svæðið til þess að gefa hinum ötulu liðsmönnum Hauksins góð ráð.

Hér má sjá myndir af venjulegri æfingu Íþróttafélagsins Hauks og einnig eru myndir af fjörmikilli æfingu í Zumba í gær.