Fara í efni

Íþróttadagurinn í næstu viku - skráning í þessari viku

Íþróttadagurinn verður í Íþróttahöllinni 7. nóv.
Íþróttadagurinn verður í Íþróttahöllinni 7. nóv.

Íþróttadagurinn í VMA verður endurvakinn í næstu viku, nánar tiltekið fimmtudaginn 7. nóvember. Nemendur í áfanga í viðburðastjórnun hjá Sunnu Hlín Jóhannesdóttur kennara hafa haft veg og vanda að undirbúningi dagsins.

Hér á árum áður var íþróttadagur fastur liður í skólastarfinu þar sem nemendur VMA og MA reyndu með sér í hinum ýmsu íþróttagreinum. Kallað hefur verið eftir því á ári hverju, m.a. af nýnemum, að koma þessum degi á aftur og nú er sem sagt komið að því. Og ekki má gleyma því að VMA er heilsueflandi framhaldsskóli og þessi viðburður smellpassar inn í það.

Þar sem fyrirvarinn var skammur tókst ekki að koma á íþróttakeppni milli framhaldsskólanna á Akureyri en niðurstaðan var sú að Framhaldsskólinn á Laugum ætlar að bregða sér af bæ með sína vösku sveit og mæta til leiks í Íþróttahöllina þar sem Íþróttadagurinn fer fram. Stórt hrós til nemenda og stjórnenda Framhaldsskólans á Laugum að bregðast svo vel við með skömmum fyrirvara og taka þátt í gleðinni.

Það verður sem sagt keppni af ýmsum toga milli VMA og Laugaskóla 7. nóvember í Íþróttahöllinni kl. 12:00 til 14:20. Rétt er að geta þess að blár verður litur stuðningsmanna VMA-liðsins. Keppt verður um bikar og hlýtur hann sá skóli sem fær fleiri heildarstig.

María Helena Mazul og Elísabeth Ása Eggerz eru í nemendahópnum í viðburðastjórnun sem hefur verið að undirbúa þennan dag. Þær segja að dagskráin sé smám saman að mótast, í stóra salnum í Íþróttahöllinni verði keppni í hefðbundnum boltaleikjum en uppi verði boðið upp á ýmsar aðrar íþróttagreinar sem hvatt er til að taka þátt í, t.d. boccia, pílu og skák.

Nemendurnir í viðburðastjórnun hafa skipt með sér verkum í undirbúningi Íþróttadagsins því í mörg horn er að líta. Upplýsingamál þurfa að vera á hreinu, allt er lýtur að skipulagi sjálfs dagsins, gerð veggspjald og myndbands og margt fleira.

Í dag, þriðjudaginn 29. október, verður Íþróttadagurinn formlega kynntur í löngu frímínútum í Gryfjunni og þar hefst skráning í íþróttagreinar. Skráning verður fram á næsta föstudag. Einnig munu nemendur í viðburðastjórnun ganga í stofur í dag, þriðjudag, og kynna daginn og skrá nemendur til keppni.

Íþróttadagurinn er góðgerðarmót og horfa nemendur í viðburðarstjórnunaráfanganum til þess að áheit sem keppendur safni, sem og ágóði af veitingasölu, renni til göngudeildar geðsviðs Sjúkrahússins á Akureyri.

„Við vonumst auðvitað til þess að þessi dagur takist vel og hann verði aftur fastur liður í skólastarfinu,“ segja María Helena og Elísabeth Ása.