Fara í efni

Íslenskt í öndvegi

Ánægðir nemendur að loknu góðu dagsverki.
Ánægðir nemendur að loknu góðu dagsverki.

Nemendurnir í grunndeild matvælagreinaí VMA koma að vonum víða við í námi sínu og fá innsýn í að búa til afar fjölbreyttan mat og bera hann á borð fyrir gesti. Að loknu tveggja anna grunnnámi velja nemendur síðan hvaða leið þeir vilja fara í framhaldinu. Sumir velja að fara í kokkinn, þjónsstarfið heillar aðra o.s.frv. Vegna m.a. aukins ferðamannastraums til Íslands ár frá ári bendir flest til þess að á komandi árum verði næg atvinnutækifæri fyrir fólk sem hefur menntað sig á þessu sviði.

Einn þáttur í grunnnáminu í VMA er að kynna nemendum íslenskan mat og matargerð. Hjördís Stefánsdóttir kennari segir mikilvægt að nemendur fái innsýn í þjóðlegan mat og hvernig hann sé gerður. Í vikunni var þorramatnum gerð skil og í gær lærðu nemendur að búa til rammíslenskan mat; plokkfisk, brauðsúpu, fjallagrasamjólk og soðið brauð, og síðan var að sjálfsögðu sest að snæðingi og kræsingunum gerð skil.

Hjördís segir allan gang á því hversu vel nemendur þekki til íslensks matar. Því sé ekki að neita að mörgum af svokallaðri pizzakynslóð þyki íslenskur matur nokkuð framandi. En þó séu alltaf einhverjir sem þekki vel til íslensks matar og þyki hann sérlega góður.

Á meðfylgjandi mynd er annar tveggja hópa nemenda á annarri önn grunndeildar matvælagreina sem bjuggu til íslenskan mat í gær. Tveir nemendur í hópnum voru fjarverandi en þeir eru þessa dagana í starfsnámi úti í bæ, en það er hluti af grunnnáminu á vorönn.