Fara í efni

Íslandsmót iðn- og verkgreina: Fjögur gull til VMA-nema

Nemendur í VMA stóðu sig aldeilis frábærlega á Íslandsmóti iðn- og verkgreina, sem fór fram í Kórnum í Kópavogi samhliða sameiginlegri kynningu framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu og nokkurra landsbyggðarskóla. Keppendur frá VMA voru skráðir til leiks í sex verkgreinum og höfðu sigur í fjórum þeirra.

Nemendur í VMA stóðu sig aldeilis frábærlega á Íslandsmóti iðn- og verkgreina, sem fór fram í Kórnum í Kópavogi samhliða sameiginlegri kynningu framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu og nokkurra landsbyggðarskóla. Keppendur frá VMA voru skráðir til leiks í sex verkgreinum og höfðu sigur í fjórum þeirra.

Í rafvirkjun stóð uppi sem sigurvegari Oddur Viðar Malmquist frá Akureyri, nemandi á 6. önn, og félagi hans, Arnór Bjarki Grétarsson frá Akranesi, einnig nemandi á 6. önn, varð í þriðja sæti. Tveir nemendur úr rafeindavirkjun tóku einnig þátt, þeir Arnkell Jónsson frá Húsavík og Sigurður Tómas Árnason frá Villingadal í Eyjafirði og stóðu sig prýðilega þrátt fyrir að hafa ekki náð verðlaunasæti.

Í keppni sjúkraliðanema sigruðu VMA-nemarnir Helga Margrét Jóhannesdóttir, sem er búsett á Akureyri en ólst upp á Sandhólum í Eyjafjarðarsveit, og Anna Fanney Stefánsdóttir frá Akureyri. Fyrirkomulagið á keppninni er með þeim hætti að tveir og tveir nemendur keppa saman.

Daníel Atli Stefánsson frá Klifshaga 2 í Öxarfirði vann til gullverðlauna í trésmíði. Einnig tók þátt í keppninni fyrir hönd VMA Þórgnýr Jónsson frá Þrasastöðum í Fljótum.

Þá hafði Jónas Þórólfsson sigur í keppni kjötiðnaðarnema. Jónas er kjötiðnaðnarnemi í VMA en starfar hjá Norðlenska.

Þessi árangur nemendanna er sannarlega rós í hnappagat viðkomandi námsbrauta og kennara á þeim, sem hafa lagt nemendunum lið við undirbúning keppninnar. Ástæða er til að óska ölllum hlutaðeigandi innilega til hamingju með frábæran árangur.

Óskar Sigurðsson var með myndavélina á lofti í Kórnum og tók þar þessar fínu myndir.