Fara í efni

Ísland með augum skiptinema

Yoichi Ito og Beatrice Paganelli.
Yoichi Ito og Beatrice Paganelli.

Í vetur stunda tveir skiptinemar á vegum AFS-skiptinemasamtakanna nám í VMA - Yoichi Ito frá Japan og Beatrice Paganelli frá Ítalíu. Yoichi er sautján ára gamall en Beatrice ári yngri. Eins og vera ber dvelja þau hjá fjölskyldum á Akureyri og sækja dagskóla í VMA.

Yoichi og Beatrice komu til Akureyrar í ágúst, um það leyti sem skólastarf í VMA hófst, og þau fara síðan af landi brott í júní. Þau eru sammála um að þeim hafi þótt spennandi kostur að fara alla leið til Íslands, þekking þeirra á landi og þjóð hafi verið takmörkuð en þau hafi þó getað sótt sér upplýsingar og séð myndir frá Íslandi á veraldarvefnum. Því hafi ekki allt komið þeim á óvart hér á landi.

„Mér fannst Ísland spennandi kostur,“ segir Beatrice. „Ég er ekki hrifinn af of miklum hita og því hentar Ísland mér ágætlega. Og náttúran hér er einstök. Þó svo að ekki sé langt á milli Íslands og Ítalíu er margt ólíkt með þessum þjóðum.“  Hún segist vera í góðu sambandi við sitt fólk nálægt Mílanó á Ítalíu í gegnum Skype. Dvölin hér sé ánægjuleg og hún sé virkilega ánægð með fósturfjölskyldu sína á Akureyri. Yoichi segist hins vegar ekki hafa samband heim í gegnum Skype, það geti mögulega ýtt undir heimþrá. Þess vegna láti hann duga að hafa samband með tölvupósti. Þau eru sammála um að það geti stundum verið erfitt að vera fjarri sínum heimahögum, en heimþráin gangi fljótt yfir og þau ætli sér að nýta dvölina á Akureyri í vetur á jákvæðan hátt.

Glöggt er gests augað, er stundum sagt. Eitt og annað kemur þeim Yoichi og Beatrice á óvart hér á landi. Youichi nefnir að það hafi komið honum á óvart hversu mikið kjöt Íslendingar borði en að sama skapi lítið af grænmeti. Í Japan sé borðað mun meira grænmeti en hér á landi. Beatrice nefnir að sér hafi fundist merkilegt að þurfa að fara úr skónum þegar inn í hús sé komið. Nú finnist henni það meira en sjálfsagt og hún eigi örugglega eftir að taka þennan sið upp þegar hún snúi aftur heim til Ítalíu. Samband nemenda og kennara í VMA segir hún að hafi verið sér nokkuð framandi. Hér upplifi hún kennara jafningja nemendanna en heima á Ítalíu sé ákveðin fjarlægð milli nemenda og kennara og nemendurnir ávarpi kennarana á annan og formlegri hátt en hér. Og hún segir að það hafi komið sér á óvart að nemendur hafi símann á sér í skólanum. Á Ítalíu sé það með öllu óheimilt, sé þessi regla brotin séu símarnir gerðir upptækir og skólayfirvöld taki þá í vörslu sína. „Ég elska ítalskan mat en mér finnst íslenskur matur líka góður, bæði kjöt og fiskur. Það kom mér svolítið á óvart hversu mikið af skepnunni Íslendingar borða – jafnvel augun,“ segir Beatrice og vísar til sviðanna. Hún segist þó eiga eftir að prófa að borða þau.