Fara í efni

Ísfold Marý og Jakobína til Litháen

Ísfold Marý (til vinstri) og Jakobína.
Ísfold Marý (til vinstri) og Jakobína.

Sagt er að þeir uppskeri sem sái – með öðrum orðum verður engin uppskera ef ekki er sáð. Í íþróttum verður enginn framúrskarandi öðruvísi en að æfa mjög mikið og leggja mikið á sig. Um komandi helgi liggur leið Ísfoldar Marý Sigtryggsdóttur og Jakobínu Hjörvarsdóttur, nemenda á íþrótta- og lýðheilsubraut VMA, til Litháen þar sem þær spila með U-19 landsliði Íslands í knattspyrnu í undankeppni Evrópumótsins. Þær eru gott dæmi um sáninguna og uppskeruna, þær hafa lagt óendanlega mikið á sig til þess að vera á þeim stað að spila fyrir Íslands hönd, það hefur verið þeirra markmið og þær hafa náð markmiðinu.

Það er reyndar engin nýlunda að þær spili í íslensku landsliðstreyjunni, það hafa þær gert í yngri landsliðum og einnig nýverið í U-19 landsliðinu í æfingaleikjum gegn Norðmönnum og Svíum. Leikurinn gegn Norðmönnum tapaðist en íslensku stelpurnar unnu jafnöldrur sínar í sænska liðinu.

Nú hefur verið valinn U-19 hópur kvenna fyrir undankeppni Evrópumótsins og hér má sjá hann. Íslenska liðið er á leið til Litháen þar sem það spilar dagana 8. til 14. nóvember við Litháen, Færeyjar og Liechtenstein. Efsta liðið í þessum undanriðli fer áfram í milliriðil í undankeppninni sem verður spilaður vorið 2023.

Ísfold Marý og Jakobína segjast vera mjög spenntar fyrir leikjunum í Litháen og ekki komið neitt annað til greina en að fara áfram í milliriðil. Þær segja það sérstaka tilfinningu og mikinn heiður að spila fyrir Íslands hönd.

Jakobína spilaði upp yngri flokkana í Þór en Ísfold Marý í KA. Þær spiluðu síðan saman í Þór-KA og eru nú komnar upp í meistaraflokk Þórs-KA. Jakobína kom til baka á völlinn á liðnu sumri eftir erfið krossbandameiðsli og er nú á leiðinni í landsliðsverkefni með U-19, sem verður að teljast mjög vel gert. Ísfold Marý segist spila á miðjunni en Jakobína er eins og það kallast á knattspyrnumáli djúpur miðjumaður en stundum spilar hún miðvörð í hjarta varnarinnar.

Knattspyrnan er stóra áhugamálið hjá báðum og í hana fer að sjálfsögðu mikill tími til hliðar við fullt nám á íþrótta- og lýðheilsubraut VMA. Stefnan er tekin á stúdentsprófið næsta vor.

Stelpunum fylgja góðar óskir um gott gengi í Litháen.