Fara í efni

Ísak og abstraktverkin

Ísak Lindi Aðalgeirsson við abstraktverkin sín.
Ísak Lindi Aðalgeirsson við abstraktverkin sín.

Það kom ekkert annað til greina en að fara á listnáms- og hönnunarbraut VMA að loknum grunnskóla, segir Akureyringurinn Ísak Lindi Aðalgeirsson. Hann segist hafa gert töluvert af því að teikna og mála í æsku og vegurinn hafi því verið nokkuð beinn og breiður í listnámið.

Á vegg á móti austurinngangi skólans eru nú uppi tvö akrýlmálverk eftir Ísak sem hann vann í málunaráfanga hjá Björgu Eiríksdóttur. Eins og hér má sjá eru þessi tvö verk abstrakt og hafa ekki ósvipað yfirbragð. Ísak segir að hann hafi heillast af þessu formi og akrýlmálverkið höfði sterkt til hans. Hann orðar það svo að hann hafi ánægju af því að vinna með línur, form og liti og því henti þessi angi myndlistarinnar honum vel.

Ísak Lindi kann náminu á listnáms- og hönnunarbrautinni vel. Þar gefist nemendum kostur á að fá sýn á margar ólíkar leiðir í listinni, t.d. þrykk, ljósmyndun, málun og teikningu, sem sé í senn skemmtilegt og gagnlegt. Auk myndlistarinnar segist Ísak grípa til annarra listforma, hann spili aðeins á hljóðfæri og punkti annað slagið hjá sér ljóð og smásögur.

En hvað mun framtíðin bera í skauti sér? Því er Ísak fljótur að svara, hann stefni ótrauður á frekara listnám eftir að hann lýkur VMA, sem hann segist stefna á að rúmu ári liðnu, vorið 2021.