Írar í heimsókn í VMA
Í liðinni viku komu góðir gestir frá Írlandi í heimsókn í VMA, nánar tiltekið frá borginni Cork og nágrenni til þess að kynna sér eitt og annað í menntamálum á Íslandi, ekki síst varðandi framhaldsfræðslu. Þessi heimsókn var í framhaldi af heimsókn starfsfólks Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar til Írlands, m.a. til Cork, vorið 2024. Ferð írska skólafólksins til Akureyrar var styrkt af Erasmus+ styrkjaáætlun ESB.
Auk þess að heimsækja SÍMEY heimsóttu gestirnir frá Írlandi Amtsbókasafnið á Akureyri, Háskólann á Akureyri, Menntaskólann á Akureyri auk VMA. Dagný Hulda Valbergsdóttir, sem hefur yfirumsjón með erlendu samstarfi í VMA, tók á móti þessum góðu gestum frá Írlandi og kynnti fyrir þeim nokkrar af námsbrautum skólans. Þá sögðu námsráðgjafar skólans, Svava Hrönn Magnúsdóttir og Helga Júlíusdóttir, stuttlega frá skólastarfinu, þeirra störfum sem námsráðgjafar og stoðþjónustu í skólanum.
Ein af sexmenningunum frá Írlandi er Nuala Glenton sem starfar sem stjórnandi, á ensku Adult Education Officer, hjá Cork Education and Training Board (Cork ETB), sem hefur á sinni könnu m.a. fullorðinsfræðslu og starfsþjálfun af ýmsum toga á Norður-Cork svæðinu. Hún hefur tvisvar áður komið til Íslands en hin fimm í ferðinni voru að koma til Íslands í fyrsta skipti og segir Nuala að þeim hafi þótt mikið til koma. Flogið var með Easy Jet frá Gatwick í Englandi á þriðjudag í síðustu viku og sömu leið til baka sl. laugardag.
Nuala segir að fólksfjöldi á Cork-svæðinu sé ekki ósvipaður og íbúafjöldi Íslands. Hún segir fjölda grunnskóla á Írlandi vera nátengda kirkjunni en ríkisstjórn Írlands hafi á stefnuskránni að gera á þessu breytingar í þá veru að draga úr tengslum skólakerfisins við kirkjuna, hvort sem er kaþólsku kirkjuna eða mótmælendatrúar kirkjuna, ekki síst vegna aukins fjölda innflytjenda til Írlands á síðustu árum.
Cork Education and Training Board (Cork ETB) varð til árið 2013 og undir þeirri regnhlíf eru þrír grunnskólar á Cork-svæðinu. Framhaldsskólarnir á svæðinu (nemendur 13 til 19 ára gamlir) eru 29. Áður voru þeir aðskildir verknáms- og bóknámsskólar en Nuala segir að þetta hafi breyst og í auknum mæli sé bæði verk- og bóknám í boði í skólunum, eins og gert er í VMA.
Nuala segir að með heimsókn starfsfólks SÍMEY til Cork fyrir hálfu öðru ári hafi komist á gott samband við SÍMEY og í framhaldinu hafi verið ákveðið að endurgjalda heimsóknina og koma til Akureyrar og sjá hvernig staðið sé að fullorðinsfræðslu og fá upplýsingar um eitt og annað varðandi menntun á Íslandi. Heimsóknin hafi verið mjög skemmtileg og lærdómsrík, gaman sé að sjá hlutina með nýjum augum og læra eitthvað nýtt.
Það var sérlega ánægjulegt að fá þessa góðu gesti frá Cork á Írlandi í liðinni viku, sem var raunar einskonar Erasmus+ vika í VMA. Skólinn er mjög virkur í evrópsku samstarfi og hefur notið velvilja Erasmus í ríkum mæli sem hefur styrkt nemendur og kennara til þátttöku í fjölbreyttum verkefnum í mörgum Evrópulöndum. Í löngu frímínútunum í síðustu viku kynntu nemendur og starfsfólk nýleg og væntanleg verkefni og ferðir.
Á þessu skólaári fara að óbreyttu 85 nemendur og 36 kennarar úr VMA til Evrópu með stuðningi Erasmus+. Á síðasta skólaári fóru 106 nemendur og kennarar úr VMA í slíkar ferðir og því verður þetta skólaár stærra í þessum efnum en síðasta skólaár. Um helmingi ferða skólaársins er þegar lokið.
Ef horft er til Evrópuferða þessa árs fara utan fimm nemendur í starfsnámi í VMA, einn nemi úr byggingadeild í 100 daga í Rovaniemi í Finnlandi, tveir úr byggingadeild í 2 vikur í Sevilla á Spáni og tveir sjúkraliðanemar í 3 vikur til Danmerkur í janúar 2026. Samtals er farið á þessu skólaári í átta námsferðir með kennurum af sjö brautum og tólf kennarar fara í svokallaða starfsspeglun eða á námskeið og í nokkrum tilfellum fara kennarar út til undirbúnings á væntanlegum nemendaskiptum.