Fara í efni

Innsetningar og útsetningar í rauntíma

Ásdís Sif Gunnarsdóttir.
Ásdís Sif Gunnarsdóttir.

Myndlistarkonan Ásdís Sif Gunnarsdóttir heldur þriðjudagsfyrirlestur í dag, 25. október, kl. 17:00-17:40 í Ketilhúsinu á Akureyri. Yfirskrift fyrirlestursins er Innsetningar og útsetningar í rauntíma, úti og inni og í gegnum net. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.

Ásdís Sif útskrifaðist með BFA-gráðu frá School of Visual Arts í New York árið 2000 og MA-gráðu frá University of California í Los Angeles 2004. Hún hefur vakið athygli fyrir vídeóinnsetningar, ljósmyndaverk og gjörninga. Auk þess að sýna á Íslandi hefur hún sýnt víða erlendis, tekið þátt í fjölda samsýninga og unnið vídeóverk á internetinu. Ásdís Sif opnar sýninguna Sýn í þokunni í Listasafninu laugardaginn 29. október nk.

Fyrirlesturinn í dag er í röð fyrirlestra síðdegis á þriðjudögum í vetur og er um að ræða samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, VMA, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri.