Fara í efni

Fór í rafeindavirkjun í VMA - er doktor í taugafræði

Dr. Páll Karlsson.
Dr. Páll Karlsson.

Þegar Akureyringurinn dr. Páll Karlsson innritaði sig í rafeindavirkjun í VMA haustið 1997 var það eðlilega ekki ofarlega í hans huga að um hálfum öðrum áratug síðar ynni hann að merkum, alþjóðlegum rannsóknum í taugafræði, t.d. á sviði sykursýki og varðandi MND-sjúkdóminn. En þetta er nú samt staðreyndin. Heimasíða VMA hafði samband við dr. Pál og innti hann eftir hans sögu. Hann varð ljúflega við því.

Líffræðin vakti áhugann
„Ég valdi VMA á sínum tíma af því að ég vildi læra rafeindavirkjun, aðallega vegna þess að mér þóttu tölvur mjög spennandi. Þetta var haustið 1997 og á þeim tíma var netið tiltölulega nýkomið á flest heimili. Ég hafði í rauninni ekki hugmynd um út á hvað rafeindavirkjun gekk og það sýndi sig líka fljótt að hún var allt annað en ég hélt. Strax á vorönn á fyrsta árinu mínu skipti ég um braut. Og áður en yfir lauk með útskrift vorið 2001 hafði ég  verið á fjórum námsbrautum í VMA;  rafeindavirkjun, fjármálum/bókhaldi, tölvunarbraut og loks raungreinum. Ég man að þegar ég tók Líffræði 103 sem hluta af náminu mínu, áður en ég skipti yfir á raungreinabraut, fann ég að þarna var ég loksins búinn að finna það sem mig langaði til að læra. Líffræðikennarinn minn kveikti í mér mikinn áhuga á líffræði, erfðafræði og læknavísindum og þetta varð upphafið að mínum ferli. Það tók því nokkurn tíma fyrir mig að finna mína hillu en það tókst á endanum. Í raungreinanáminu var ég loksins nægilega lengi til að kynnast einhverjum almennilega í skólanum og ég er enn í góðu sambandi við marga af skólafélögunum mínum úr VMA. Skólalífið og félagslífið var mjög virkt, man ég, og ég vona að það sé ennþá þannig. Ég starfaði til dæmis í leiklistarkúbbnum og ég tók að mér að vera einn af ritstjórum Mínervu.
Skömmu eftir útskrift flutti ég til Árósa í Danmörku. Nokkrum mánuðum áður hafði ég sótt um að komast inn í sameindalíffræði í Árósum, enda vildi ég halda áfram á sömu braut. Systir mín, sem líka hafði verið í VMA, hafði flust til Árósa nokkrum árum áður og ég vildi einnig láta á það reyna að búa erlendis. Árósir var því þægilegt val - ekki of langt heim ef eitthvað myndi ekki ganga upp! Það endaði með að ég kláraði bachelor og meistaragráðu (MSc) í sameindalíffræði/taugalíffræði og strax þar á eftir doktorsgráðu í læknavísindum við Háskólasjúkrahúsið í Árósum á tauga- og verkjadeildinni þar. Ég hafði mikinn áhuga á rannsóknum og að búa til nýja vísindaþekkingu sem myndi nýtast í læknisfræðinni og valdi því eins klíníska leið eins og ég gat í rannsóknunum. Ég hafði alltaf sérstaklega mikinn áhuga á taugafræðinni.“

Gott að búa í Árósum
Páll segist hafa tekið nánast allt sitt framhaldsnám í Árósum, ef undan sé skilið tímabil þegar hann flutti til Íslands aftur á meðan ég hann var í bachelor-grunnnáminu.
„Mér hefur alltaf liðið rosalega vel í Árósum, sem á margan hátt er lík Akureyri. Í Árósum búa um 300.000 manns, en maður tekur ekki svo mikið eftir því. Bærinn er mjög grænn og með mikið af opnum svæðum og fólk er vinalegt - rétt eins og á Akureyri. Það tók mig ekki langan tíma að komast inn í dönskuna - sennilega ekki meira en 3-4 mánuði - en ég flutti til Árósa strax eftir útskrift um vorið 2001, svo ég hafði sumarið til að læra dönskuna betur, sem ég gerði með því að vinna á veitingahúsi. Dönskukennslan frá VMA nýttist mér ótrúlega vel. Strax eftir mastersgráðuna fékk ég stöðu sem doktorsnemi á taugadeildinni á Háskólasjúkrahúsinu, sem er launuð staða þar sem maður stundar klínískar rannsóknir í þrjú ár. Eftir að ég fékk doktorsgráðuna mína var ég ráðinn sem „senior researcher“ á sömu deild og er að vinna þar núna við rannsóknir á sykursjúkum sjúklingum með taugaverki.“

Hefur fengið háa fjárstyrki
Eðli málsins samkvæmt eru rannsóknir mjög kostnaðarsamar og því er nauðsynlegt að fá styrki til að geta framkvæmt þær. Dr. Páll segist hafa verið svo heppinn að fá persónulega mjög stóran fjárstyrk sem geri honum kleift að rannsaka betur næstu þrjú árin af hverju upp undir 50%  sykursýkissjúklinga fá mikla taugaverki. „Þessir sjúklingar geta sumir hverjir ekki sofið með sæng eða verið í sokkum með teygju, af því að sængin er of þung ofan á líkamanum og teygjan í sokkunum þrýstir of mikið á húðina. Þeir geta heldur ekki verið úti í kulda og þeir eru alltaf með stingandi eða brennandi verki. Þetta er vegna þess að litlu taugaendarnir sem eru í húðinni eru skemmdir. Þetta hefur verið rannsóknarefnið mitt síðustu 5 árin eða svo. Ég tek húðsýni úr sjúklingunum til að kanna ástand þeirra og geri ýmis konar skynpróf á sjúklingunum til að kanna ástand tauganna. Út frá þessum prófunum getum við greint sjúklingana og ég ber ábyrgð á þessum hlutum. Núna er ég að reyna að afla frekari upplýsinga um hvað það er sem gerist við taugafrumurnar þegar þær eru í sjúku ástandi og komast að því hvað sé hægt að gera til að laga þessar frumur svo sjúklingarnir upplifi ekki þessa sáru taugaverki. Þetta er verkefni sem ég setti upp sjálfur, stjórna og ber ábyrgð á. Ég hef sett þetta upp sem alþjóðlegt verkefni og hef verið svo heppinn að komast í mjög góð sambönd við mörg af helstu og þekktustu sjúkrahúsum og háskóla heims þar sem ég hef verið í styttri eða lengri tíma eins og The Johns Hopkins Hospital í Bandaríkjunum sem í áratugi hefur verið meðal fremstu sjúkrahúsa heims. Þetta á einnig við um Oxford háskólann og sjúkrahúsið í Bretlandi sem sömuleiðis er meðal þeirra allra bestu í heimi og Carlo Besta í Mílan á Ítalíu, sem er þeirra fremsta taugasjúkrahús. Í augnablikinu er ég að störfum í Oxford, sem eru algjör forréttindi því ég fæ að vinna með ótrúlega hæfileikaríku fólki og athafna mig á jafn söguríku svæði eins og Oxford er og feta í fótspor fjölmargra þekktra einstaklinga. Í mínum geira skipta góð, alþjóðleg samskipti höfuðmáli. Nýlega fékk svo rannsóknamiðstöðin sem ég vinn á í Árósum styrk upp á rúmlega 1,3 milljarð íslenskra króna til að rannsaka þetta nánar. Svo það er mikill áhugi á þessum rannsóknum núna og ég sé fram á að við munum ráða mikið af nýju fólki næstu árin og það verður mikið að gera,“ segir dr. Páll en hér má heyra viðtal Ríkisútvarpsins við hann í september á síðasta ári um þessar rannsóknir. 

Rannsóknir á MND
Dr. Páll segist líka hafa verið að fást við rannsóknir á MND-sjúkdómnum í samstarfi við MND-félagið á Íslandi.  „Í masternáminu þarf maður að taka rannsóknaverkefni sem tekur um eitt ár. Ég hafði mikinn áhuga á að stunda rannsóknir á MND sem er taugahrörnunarsjúkdómur og dregur sjúklinga til dauða að meðaltali undir þremur árum, en náinn ættingi minn lést úr þessum hræðilega sjúkdómi þegar ég var ungur strákur. MND-félagið styrkti mig rausnarlega þegar ég var að stunda þessar rannsóknir og allar götur síðan hef ég alltaf verið viðriðinn rannsóknir á þessum sjúkdómi. Ég er bæði leiðbeinandi fyrir íslenskan læknanema sem stundar rannsóknir á MND í Árósum og hef yfirumsjón með stóru alþjóðlegu MND-verkefni sem Ísland tekur þátt í en það verkefni er rétt að hefjast og munum við safna lífsýnum frá sem flestum MND-sjúklingum og vinna úr í samstarfi við alþjóðlegar rannsóknastofnanir til að komast að því hvað orsakar sjúkdóminn, sem er ekki vitað í dag þrátt fyrir áratuga langar rannsóknir.“
Hér má heyra viðtal Ríkisútvarpsins við dr. Pál um MND-sjúkdóminn í ágúst sl.

Á ferð og flugi
Næstu árin býst dr. Páll við að búa áfram í Árósum. „Já, að óbreyttu verðum við áfram í Danmörku. Lífið hérna leikur við okkur og hér er frábært að vera. Við komum reglulega í heimsókn heim til Íslands og pössum upp á að tala íslensku heima hjá okkur svo dæturnar okkar skilji og tali íslensku líka, en það er ekki á döfinni að flytja til Íslands aftur eða annarra landa. Eitt af því áhugaverða við rannsóknastarfið er að það er oftast mjög auðvelt að starfa í öðrum löndum og ef maður er sæmilega fær í því sem maður gerir koma upp fullt af tækifærum til að starfa í lengri eða skemmri tíma á erlendum stofnunum,“ segir Páll. „Ég ferðast mikið í mínu starfi og er allt frá 4-5 dögum og upp í 2-3 mánuði á hverjum stað. Ég reyni að taka fjölskylduna mína eins mikið með og kostur er. Síðustu 12 mánuðina hef ég verið 4 mánuði í Bandaríkjunum og ég hef ferðast til Íslands, Noregs, Bretlands, Hollands og Grikklands. Akkúrat núna er ég í Oxford í Bretlandi að vinna, í mars fer ég til Spánar og nokkrum dögum eftir Spán fer ég í enn eina ferðina til Bandaríkjanna. Ef ég horfi aðeins lengra aftur í tímann þá hef ég farið til landa eins og Ítalíu, Egyptalands og Kína, svo það er talsvert af ferðalögum í starfinu, en maður ræður því að miklu leyti sjálfur. Ég vel margar ferðir frá líka, svo ég sé ekki of mikið í burtu,“ segir Páll sem er kvæntur Árúnu Ósk Guðgeirsdóttur og saman eiga þau tvær dætur; Theu sem er 9 ára og Hebu sem er 5 ára. Árún er menntuð kjólaklæðskeri frá Iðnskólanum í Reykjavík og vann í nokkur ár sem slíkur í Árósum. Fyrir tæpum tveimur árum fór hún í fatahönnunarskóla og lýkur því námi í vor.

Góður grunnur í VMA
Þegar dr. Páll horfir til baka segist hann ekki hafa leitt hugann að því þegar hann var í VMA að starfsvettvangur hans yrði í líkingu við það sem raun ber vitni. „Nei, ég held að ég hafi ekki hugsað svo langt fram í tímann þegar ég var í VMA. Ég var bara meðalnemandi og vildi fyrst og fremst klára stúdentsprófið og taka bachelorgráðu í háskóla. Ég var síðan svo heppinn að komast inn í námið í Árósum og eftir það hefur allt saman gengið eins og í sögu. Grunnurinn sem ég fékk í VMA var mjög góður fyrir framhaldsnámið mitt og gerði það auðveldara fyrir mig. En ég væri að ljúga ef ég myndi segja að ég hafi tekið stefnuna á doktorsgráðu í læknavísindum þegar ég var í VMA, svo að því leyti hefur mér gengið mun betur en ég þorði að vona og starfið mitt er bæði ótrúlega spennandi og krefjandi,“ segir dr. Páll Karlsson.