Fara í efni

Iðnir krakkar úr Lundarskóla

Kátir Lundarskólakrakkar í heimsókn í VMA í gær.
Kátir Lundarskólakrakkar í heimsókn í VMA í gær.

Það var ósvikin gleði og eftirvænting í augum fjórðu bekkinga úr Lundarskóla á Akureyri sem heimsóttu VMA í gær. Heimsóknin var liður í verkefninu Iðnir krakkar sem nemendur eru nú að vinna að með kennurum sínum. Nafn verkefnisins vísar til bókarinnar Iðnir krakkar eftir hinn vinsæla barnabókahöfund Sigrúnu Eldjárn sem kom út fyrir nokkrum árum. Bókin fjallar um systkinin Siggu Láru og Kára og kynni þeirra af margvíslegum iðnaðarmönnum, t.d. málara, rafvirkja, pípara, gullsmið, bakara og hársnyrti.

Á bókarkápu segir:

Öll þurfum við þak yfir höfuðið, það er staðreynd. Og ekki bara þak og allt sem því fylgir heldur einnig ýmislegt annað svo að okkur líði vel. En hver skyldi t.d. vera galdurinn að baki fullbúnu íbúðarhúsi með rennandi vatni, hita og lýsingu? Eða þá fallegri bók, nýbökuðu brauði og góðri klippingu? Og hvert er eiginlega þetta „galdrafólk“ sem vinnur verkin? Iðnaðarmennirnir. Í þessari bók fáum við einmitt að kynnast mörgum þeirra í gegnum þau ágætu systkin Siggu Láru og Kára, t.d. Stínu stuð og Rabba hársnyrti. Góða skemmtun! 

Liður í þessu verkefni nemenda í Lundarskóla var að heimsækja VMA og sjá með eigin augum og kynnast fjölbreyttu verknámi í skólanum. Einnig hafa nemendur heimsótt Iðnaðarsafnið á Akureyri og ætlunin er að heimsækja fyrirtæki.

Þetta verkefni hefur verið í Lundarskóla fyrir þriðju bekkinga undanfarin ár og gengið mjög vel. Vegna kóvid féll það niður í fyrra og til að bæta nemendum það upp núna eru bæði þriðjubekkingar og fjórðubekkingar skólans í þessu verkefni núna á lokavikum skólastarfsins. Fjórðubekkingar voru í VMA í gær og þriðjubekkingar eru væntanlegir í heimsókn í skólans. Fjórðubekkingar voru í þremur hópum í heimsókninni í gær, enda er árgangurinn mjög stór eða 63 nemendur, sem er stærsti árgangurinn í Lundarskóla.