Fara í efni

Í vélstjórn og fimleikum

Sólon Sverrisson vélstjórnarnemi í VMA og landsliðsmaður í fimleikum.
Sólon Sverrisson vélstjórnarnemi í VMA og landsliðsmaður í fimleikum.

Það er í mörg horn að líta hjá Sólon Sverrissyni nemanda í vélstjórn í VMA og landsliðsmanni í fimleikum. Stundaskráin er þéttskipuð frá morgni til kvölds því auk þess að vera í fullu námi í vélstjórn æfir hann fimleika að jafnaði fjóra tíma á dag, sex daga vikunnar.

Sólon, sem er fæddur og uppalinn á Akureyri, segist hafa æft fimleika frá unga aldri. Einnig var Sólon um tíma í fótbolta og golfi en á unglingsárum ákvað hann að velja fimleikana og einbeita sér að þeim. Hans annað heimili er æfingasalur fimleikadeildar KA – áður Fimleikafélags Akureyrar – í íþróttamiðstöð Giljaskóla á Akureyri. Þar er hann eftir skóla við æfingar – frá kl. 16 til 20 eða 17 til 21. Hann hefur keppt fyrir Íslands hönd í U-18 landsliðnu í fimleikum og náð þar eftirtektarverðum árangri, einkum í stökki, en nýverið var hann valinn í fyrsta skipti í landsliðið í fimleikum í fullorðinsflokki og fyrsta verkefnið verður svokallað Norður-Evrópumót í Leicester á Englandi dagana 23.-25. október nk. Þar keppir Sólon í fjölþraut sem hluti af liði Íslands – þetta verður liðakeppni, sex keppa frá hverju landi og fjórar bestu einkunnir liðsmanna frá hverju landi á hverju áhaldi gilda.

Auk þess að æfa hér norðan heiða hefur Sólon farið reglulega suður og æft með félögum sínum í landsliðinu. 

„Markmiðið mitt frá því ég var pínulítill hefur verið að keppa fyrir Íslands hönd. Núna er ég kominn á þann stað og nú hef ég sett mér það markmið að gera flóknari og erfiðari æfingar og ná þannig lengra. Það þarf ég að gera til þess að komast inn á stærri mót eins og heimsmeistaramót. Mín sterkasta keppnisgrein er stökkið. Ég náði öðru sæti í stökki í unglingaflokki á Norðurlandamóti og þriðja sæti í Junior Cup í Berlín, þar sem fimleikafólk frá mörgum Evrópulöndum keppti,“ segir Sólon.

Sólon er á fjórða ári í vélstjórn í VMA. Hann segir það ekkert launungarmál að til þess að stunda fimleikana af kappi til hliðar við fullt nám í vélstjórninni þurfi hann að vera mjög skipulagður og nýta tímann vel. Í vor lýkur hann C-réttindum og stúdentsprófi og mögulega segist hann láta þá gott heita, en það sé þó ekki enn ákveðið, en fimmta árið í skóla gefur D vélstjórnarréttindi. Sólon segist ekki hafa gert upp við sig hvað taki við að loknu námi í VMA en vélaverkfræði sé eitt af því sem komi til greina.