Fara í efni

Í þjónanámi og stefnir síðan á lögreglufræði

Petra Sif Lárudóttir.
Petra Sif Lárudóttir.

Þjónn og lögreglukona. Þannig eru í stórum dráttum framtíðaráform Petru Sifjar Lárudóttur, 21 árs Akureyrings, sem stundar í vetur nám í grunndeild matvæla- og ferðagreina í VMA.

Petra var skólaárið 2015-2016 á viðskipta- og hagfræðibraut VMA en fannst sem hún væri ekki á alveg réttri hillu. Fór þá út á vinnumarkaðinn og vann í ýmsum þjónustustörfum. Flutti sautján ára gömul suður til Reykjavíkur og vann þar m.a. sem þjónn á Íslenska barnum, sem er gegnt Gamla bíói. Petra segir að þjónastarfið hafi strax heillað hana og úr varð að hún fór til London og sótti þar tveggja mánaða nám í barþjónaskóla. Flutti aftur heim til Akureyrar og fór að vinna sem þjónn á 1862 Bistro í Menningarhúsinu Hofi og einnig á R5. Eitt leiddi af öðru og bauðst Petru starf vaktstjóra á Bautanum. Eftir árs starf þar lá leiðin á veitingastaðinn Rub, þar sem hún er nú á námssamningi sem þjónn. Jafnframt tekur hún  grunndeild matvæla- og ferðagreina í VMA til þess að geta farið áfram í 2. og 3. bekk þjónanámsins í MK, mögulega næsta vetur ef allt gengur upp. Petra stefnir að sveinsprófi í þjóninum að námi loknu og ná sér þannig í full réttindi.

Petra Sif er með mörg járn í eldinum. Auk þess að vinna sem þjónn á Rub og stunda nám í VMA hefur hún nýlega lokið dyravarðanámskeiði og er því klár í dyravörslu ef á þarf að halda. Með vinnunni á Rub hefur hún tekið kvöldvaktir á barnum á Götubarnum og gæti, ef því er að skipta, einnig gerst dyravörður þar. Petra er einnig í fjarnámi við Fjölbrautaskólann við Ármúla, þar tekur hún nokkur bókleg fög og safnar einingum til stúdentsprófs. Til þess að komast inn í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri þarf stúdentspróf og að því stefnir Petra einnig í framtíðinni.

„Ég hef frá því ég var krakki átt mér þann draum að starfa í lögreglunni. Sá draumur hefur ekki farið frá mér og því vil ég stefna á lögreglufræðina eftir að ég hef lokið við að læra til þjóns,“ segir Petra Sif. 

Þessar myndir voru teknar í kennslustund hjá Eddu Björk Kristinsdóttur í grunndeild matvæla- og ferðagreina í VMA. Til eru óteljandi útgáfur af servíettum, hugmyndaflugið ræður útkomunni. Ein útgáfan er nefnd Brúðarskór, önnur Franska liljan, sú þriðja Stjarnan, fjórða útgáfan kallast Bananinn -  og svo mætti áfram telja.