Fara í efni

Í raunfærnimat og síðan í grunndeild málmiðnaðar

Guðmundur Kjartansson.
Guðmundur Kjartansson.

„Ég fór í raunfærnimat í Iðunni fræðslusetri og það kom mér nokkuð á óvart hversu mikið það gaf mér,“ segir Guðmundur Kjartansson, nemandi í grunndeild málmiðnaðar í VMA. Hann hóf grunndeildarnámið í byrjun þessarar annar og hefur tekið stefnuna á að fá starfsréttindi sem vélvirki.

Ástæðan fyrir því að Guðmundur fór í raunfærnimatið var sú að hann hefur í mörg undanfarin ár unnið við viðhald hvalaskoðunarbáta Eldingar í Reykjavík og einnig á Akureyri eftir að hann flutti norður haustið 2019. Einnig hefur hann verið í siglingum á RIB-hvalabátum fyrirtækisins. Raunar er Guðmundur lærður ævintýraleiðsögumaður og starfaði við leiðsögn í nokkur ár.

Raunfærnimat nýtist mjög þeim sem hafa starfað lengi í ákveðinni iðngrein en hafa ekki starfsréttindi. Um það segir á heimasíðu Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins: „Raunfærnimat er staðfesting og mat á raunfærni einstaklings án tillits til þess hvernig eða hvar hennar hefur verið aflað. Markmiðið er að einstaklingur fái viðurkennda raunfærni, sem hann býr yfir á ákveðnum tíma, þannig að hann þurfi ekki að sækja nám í því sem hann kann eða öðlist framgang í starfi. Raunfærnimatið staðfesti hans hæfni.“

Þetta þýðir með öðrum orðum að komi einstaklingur vel út úr raunfærnimati, þ.e. að hann búi yfir mikilli raunfærni í viðkomandi iðngrein, styttir það leiðina í skóla í átt að starfsréttindum. Guðmundur er gott dæmi um það. Hann hefur á undanförnum árum byggt upp mikla raunfærni í vélgreinum sem styttir leið hans að því að fá starfsréttindi sem vélvirki.

Guðmundur, sem er á 35. aldursári, segir að í ljósi niðurstöðu raunfærnimatsins hafi verið rökrétt framhald að fara í grunndeild málmiðna í VMA og segist hann kunna vel við sig í náminu. „Ég er nú þegar búinn að læra mjög mikið hér og stefnan er að halda áfram og ljúka þeim áföngum sem upp á vantar til þess að ljúka vélvirkjuninni. Ýmsa almenna bóklega áfanga tók ég fyrir margt löngu í Iðnskólanum í Reykjavík og því stend ég þar ágætlega að vígi en þarf fyrst og fremst að taka faglega áfanga í vélvirkjuninni,“ segir Guðmundur sem býr á Dalvík og fer daglega á milli. Hann segist hafa til að byrja með búið í húsi sem kunningi hans átti en fjölskyldunni hafi líkað lífið svo vel á Dalvík að niðurstaðan hafi verið að kaupa þar hús og setja sig niður á Dalvík.