Fara í efni

Námsleyfi nýtt til náms í opinberri stjórnsýslu og markþjálfun

Benedikt Barðason aðstoðarskólameistari VMA.
Benedikt Barðason aðstoðarskólameistari VMA.

Benedikt Barðason aðstoðarskólameistari VMA er kominn til starfa á ný eftir að hafa verið í námsleyfi síðasta árið. Hann segist hafa nýtt síðasta vetur til náms, sem hafi verið afar skemmtileg áskorun, en jafnframt sé ánægjulegt að vera kominn til starfa við skólann á nýjan leik.

„Það er yndislegt að vera kominn aftur til starfa. Það tók mig nokkra daga að rifja upp verkefnin en núna er rútínan komin í gang, skólastarfið er hafið og það er bara ljómandi gott. Við erum með stóran hóp nýnema og almennt líst mér mjög vel á veturinn,” segir Benedikt.

Fyrir ári síðan hóf Benedikt nám í opinberri stjórnsýslu í Háskóla Íslands. Að stórum hluta var um fjarnám að ræða og því var unnt að taka bróðurpart námsins í gegnum tölvu frá Akureyri. Eftir fyrri önnina var diploma að baki í opinberri stjórnsýslu en áfram var haldið og numið til vors. „Þá voru í húsi 90 einingar af 120 einingum til meistaraprófs. Ritgerðinni á ég eftir að skila og hún verður verkefni vetrarins samhliða fullri vinnu hér, ef allt gengur að óskum,“ segir Benedikt.

Frá 1989 hefur Benedikt starfað með hléum við VMA. Hann var þrjú ár í Danmörku, á árunum 1994-1997, til þess að læra efnatæknifræði og að því loknu lá leiðin aftur til kennslu í VMA. Hann var áfangastjóri til nokkurra ára og veturinn 2011-2012 leysti hann af sem aðstoðarskólameistari og var síðan ráðinn í það starf árið 2016.

„Það var mikil áskorun að setjast á skólabekk. Auðvitað hefur maður verið reglulega í endurmenntun en þetta var öðruvísi. Ég tók þetta eins og hverja aðra vinnu og var jafnan sestur við tölvuna að morgni dags og vann mína átta tíma. Hópavinna var líka hluti af náminu og í hana var oft farið á kvöldin þegar öllum viðkomandi hentaði. Þetta var að lang stærstum hluta unnið í fjarnámi en síðan voru áfangar sem var skyldumæting í og því fór ég suður að jafnaði fjórðu hverja helgi. Stóri ávinningurinn af náminu í HÍ var að læra um það starf sem ég er í, þ.e. opinbera stjórnsýslu. Það var afar áhugavert og gefandi. Ég tel eftir að hafa farið í gegnum þetta nám að afar æskilegt sé að þeir sem gegna ýmsum opinberum stjórnunarstörfum taki í það minnsta diplomanámið í opinberri stjórnsýslu,“ segir Benedikt. Hann segist fúslega viðurkenna að sú áskorun að takast á við svo krefjandi nám hafi kveikt áhugann á því að læra meira. Alltaf sé hægt að bæta við sig í ýmsu er lýtur að skóla- og menntunarfræði.

Ekki aðeins tókst Benedikt á við framangreint nám í opinberri stjórnsýslu. Hann ákvað að taka stökkið og fór í markþjálfunarnám. „Ég hafði alltaf velt vöngum yfir að gera eitthvað meira þetta ár en stunda námið í opinberri stjórnsýslu. Vissi hins vegar ekki hvert leiðin myndi liggja. Það var síðan einn góðan veðurdag þegar ég var að vinna að krefjandi hópaverkefni í náminu í opinberri stjórnsýslu að ég sé auglýst nám í markþjálfun hjá fyrirtækinu Profectus í Reykjavík. Ég fer með það sama inn á heimasíðu fyrirtækisins, les mér til um námið og skrái mig strax. Tveimur dögum síðar hóf ég markþjálfunarnám og lauk því ásamt viðbót sem á ensku kallast „Whole Brain Coach“. Opinber stjórnsýsla fjallar almennt ekki mikið um að ná árangri með fólk maður á mann. En markþjálfunin veitir innsýn í mannlega þáttinn, að vinna maður á mann. Þetta var mjög áhugavert og gefandi. Samtalstækni er einn þátturinn og hann nýtist afar vel í öllum stjórnunarstörfum, varðandi t.d. starfsmannaviðtöl og það sama á við um samtöl við nemendur. Ég hefði ekki viljað missa af þessu.“

Þriðja áskorunin síðasta vetur var jólafríið. Benedikt segist ekki hafa náð heilu jólafríi í mörg undanfarin ár vegna þess að sem aðstoðarskólameistari og áfangastjóri í VMA hafi drjúgur tími af jólafríinu verið fyrir framan tölvuna við undirbúning vorannar. En síðustu jól voru öðruvísi, í hálfan mánuð um jól og áramót var Benedikt og fjölskylda á Kanaríeyjum. „Vissulega voru þetta öðruvísi jól en í stuttu máli sagt var þetta hreint dásamleg ferð sem við höfðum öll mikla ánægju af,“ segir Benedikt.