Fara í efni

Í mörg horn að líta í tæknimálunum

Árni Björnsson, tæknifulltrúi VMA.
Árni Björnsson, tæknifulltrúi VMA.

Það hefur verið í mörg horn að líta fyrir Árna Björnsson tæknifulltrúa VMA núna í upphafi skólaárs enda þarf að mörgu að hyggja í tölvumálum, bæði nemenda og kennara, þegar hjólin byrja að snúast. Tryggja þarf tölvuaðgang nemenda og að öll kennslukerfi virki sem ein heild.

Árni hóf störf sl. vor og starfar hann annars vegar sem tæknifulltrúi VMA og hins vegar hjá FabLab Akureyri, sem er til húsa í VMA.

Árni er tölvunarfræðingur að mennt frá Háskólanum í Reykjavík. Því námi lauk hann sl. vor. Áður hafði hann lært bifvélavirkjun og starfaði að námi loknu í nokkur ár á bifreiðaverkstæði í Reykjavík. Það má því með sanni segja að Árni hafi tekið töluverða u-beygju þegar hann færði sig úr bílaviðgerðum í tölvunarfræðinám. Hann segir það þó ekki tilviljun því hafi lengi haft brennandi áhuga á tölvum.

Eiginkona Árna er Julia Leschhorn heilsugæslulæknir á Akureyri. Þegar hún var í sérfræðinámi í heimilislækningum bjuggu þau á Akureyri 2013-2014. Árni segir að þeim hafi líkað vistin vel og þegar tækifæri gafst til hafi þau gripið gæsina og flutt norður aftur í febrúar 2020.

Sem fyrr segir tekur starf tæknifulltrúa VMA m.a. til ýmissa hluta er tengjast tölvunotkun. En í FabLab smiðjunni segist Árni feta nýja slóð sem hann eigi eftir að setja sig betur inn í. Liður í því er veflægt fablab-nám sem hann stefnir að því að stunda á vorönn.