Fara í efni

Í listnámi og parkúr

Bjarni Ísar Th. Bjarnason, nemandi á listnámsbraut
Bjarni Ísar Th. Bjarnason, nemandi á listnámsbraut

Akureyringurinn Bjarni Ísar Th. Bjarnason stundar nám á listnámsbraut VMA. Auk þess að teikna og mála stundar hann íþróttina parkúr (parkour), sem mætti e.t.v. lýsa sem frjálsum fimleikum. Hann segir íþróttina hafa þann kost að unnt sé að æfa hana hvar og hvenær sem er og bestu hugmyndirnar fyrir listsköpunina á listnámsbrautinni fái hann þegar hann fari út og taki nokkur parkúr-stökk.

„Ég byrjaði að æfa parkúr haustið 2010. Ég hafði ekki stundað neina ákveðna íþrótt en það var fyrir áeggjan vina minna sem ég prófaði þetta í fimleikahúsinu við Giljaskóla. Ég varð fljótlega heillaður af þessari íþrótt sem hefur þann kost að maður getur styrkt líkamann  með æfingum hvar sem er. Þetta er „extreme“ íþrótt sem gefur ýmsa möguleika, það er alltaf eitthvað nýtt að prófa,“ segir Bjarni.

Hann byrjaði sl. haust á almennri braut í VMA en hóf síðan nám á listnámsbraut um áramót og kann því mjög vel. „Ég ákvað strax í 6. bekk í grunnskóla að fara í listnám en síðan var fullt á listnámsbrautinni sl. haust og ég komst því ekki inn. Þess vegna fór ég til að byrja með á almenna braut. Ég komst síðan inn á listnámsbrautina um áramót og er mjög ánægður með námið.“

Bjarni segir það fara prýðilega saman að stunda parkúr og listnám. „Já, það fer bara mjög vel saman því ég fæ fullt af hugmyndum þegar ég er í parkúr,“ segir Bjarni og upplýsir að til viðbótar annist hann þjálfun yngri iðkenda í fimleikum og parkúr hjá Fimleikafélagi Akureyrar. Í það heila segir hann að um 100 iðkendur séu í parkúr á Akureyri – undir merkjum Fimleikafélagsins – sem segir allt um hversu vaxandi þessi íþróttagrein er í bænum.