Fara í efni

Í kjötiðn og listnámi

Helgi Freyr Guðnason við fatahengið sitt góða.
Helgi Freyr Guðnason við fatahengið sitt góða.

Ekki er svo ýkja langt á milli náms í kjötiðn og listnáms! Það finnst Helga Frey Guðnasyni í það minnsta ekki. Hann hefur  til skiptis verið í kjötiðnaðar- og listnámi og finnst ekkert sjálfsagðara. Hann sat áfanga í vöruhönnun núna á haustönn og þar náði hann að sameina kjötiðnaðargenin og listagenin á afar skemmtilegan hátt í fatahengi sem hann bjó til – fatahengi fyrir sveitahótel.

„Til að byrja með fór ég í grunndeild matvælabrautar og síðan í kjötiðn. Þá lá leiðin á listnámsbraut, aftur í kjötiðn og síðan aftur á listnámsbraut þar sem ég er núna. Ég vann í tvö ár hjá Kjarnafæði og tók verklega samninginn í kjötiðn hjá þeim en tók faggreinarnar hér í skólanum um helgar. Ég stefni að því að taka sveinspróf í kjötskurði. En núna er ég á listnámsbraut og stefnan er að ljúka stúdentsprófi þar eftir ár,,“ segir Helgi Freyr.

Í síðustu viku sýndu nemendur í áfanga í vöruhönnun afrakstur vinnu sinnar á haustönn. Þar gaf að líta margar bráðskemmtilegar útfærslur nemenda á m.a. lömpum og fatahengjum. Helgi Freyr ákvað að útfæra fatahengi fyrir sveitahótel og þá kom sér vel að hafa þekkingu á úrbeiningu lambskrokka. Hann notaði sem sagt lambabein sem hanka í fatahenginu og er það þakið gráleitri gæru. Sannarlega vísan í sveitina á sveitahótelinu.

„Ég hafði mikla ánægju af því að taka þennan áfanga. Þarna gafst okkur tækifæri til að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn og búa til hluti. Hugmyndin með því að nota þessi bein úr lömbum er sú að geta hengt m.a. lopapeysur á snagana án þess að á þær komi gat, eins og er algengt þegar lopapeystur eru hengdar upp á venjulega snaga,“ segir Helgi Freyr.

Hann segist ekki vita hvað hann geri eftir að hann lýkur stúdentsprófi af listnámsbraut og sveinsprófi í kjötskurði. „Ég hef bara ekki hugmynd um það. Það verður bara að koma í ljós í fyllingu tímans. Kannski að maður fari bara að læra vöruhönnun. Hún er mjög áhugaverð og ég mæli með því að allir taki þennan áfanga, enda er hann valáfangi og opinn öllum,“ segir Helgi Freyr Guðnason.