Í heimi AutoCAD
Í VMA er boðið upp á tvo áfanga í grunnteikningu. Í síðari áfanganum fá nemendur innsýn í AutoCAD, sem er þekktasti hugbúnaðurinn sem iðnaðarmenn í ólíkum iðngreinum nota og raunar miklu fleiri. Í framhaldi af grunnteikningunni er áfangi í iðnteikningu og þar er áherslan á notkun AutoCAD. Forritið býður upp á mikla möguleika og er í stöðugri þróun. Það sem gildir fyrir nemendur er að tileinka sér þessa tækni og það er með þetta eins og margt annað að stöðug æfing og að fara í gegnum fjölbreytt verkefni er lykilatriði. Hér eru nemendur Ásgeirs Más Andréssonar að þjálfa sig í AutoCad. Á meðan nemendur eru skráðir í nám geta þeir fengið ókeypis aðgang að notkun forritsins.
En hvað er AutoCAD? Í stuttu máli er um að ræða tölvuforrit til að teikna og hanna með CAD-hugbúnaði (Computer-Aided Design) sem iðnaðarmenn af ýmsum toga – hvort sem er í stálsmíði, vélvirkjun og vélstjórn, pípulögnum, húsasmíði eða rafiðngreinum. Einnig hafa arkitektar út um allan heim lengi notað AutoCAD sem og verkfræðingar og hönnuðir.
AutoCAD er undir regnhlíf Autodesk, ríflega fjörutíu ára fyrirtækis í Bandaríkjunum, sem í dag er án efa eitt af stærstu og þekktustu hugbúnaðarfyrirtækjum á þessu sviði í heiminum. Önnur þekkt forrit undir Autodesk eru t.d. Revit fyrir hönnun bygginga, Fusion 360 fyrir vöru- og vélahönnun, 3ds Max fyrir 3D grafík, kvikmyndir og leiki, Maya fyrir 3D hreyfimyndir og kvikmyndagerð og Inventor fyrir vélateikningar og samsetningar.
AutoCAD hefur náð mikilli útbreiðslu umfram önnur forrit í þessum geira vegna mikillar nákvæmni, auðvelt er að deila teikningum og breyta þeim og forritið styður mörg skráarsnið.
Í AutoCAD er unnt að reikna 2D teikningar – grunnmyndir, snið og uppdrætti, búa til 3D líkön, setja inn mælikvarða, málsetningar og skýringar og útbúa nákvæma tæknilega uppdrætti til framleiðsu og byggingar.