Fara í efni

Hvergi nærri komin á endapunkt í umhverfishugsun

Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, líffræðingur og sérfræðingur á Umhverfisstofnun. Mynd: Kristín Bj…
Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, líffræðingur og sérfræðingur á Umhverfisstofnun. Mynd: Kristín Björk Gunnarsdóttir.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna umlykja allt okkar daglega líf og að þeim hefur sjónum verið beint í auknum mæli hér í VMA, síðast í þemaviku í október sl. Umhverfis- og loftlagsmál hafa aukið vægi í þjóðfélagsumræðunni, enda kannski ekki skrítið þegar á degi hverjum er horft upp á hrikalegar afleiðingar hækkandi hitastigs á jörðinni. Vart líður sá dagur að ekki séu fréttir einhvers staðar úti í heimi um afleiðingar loftlagshlýnunar og þetta sést áþreifanlega einnig hér á landi, m.a. með hopun jöklanna.

En almennt séð, hvert er viðhorf almennings til umhverfismála? Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, líffræðingur og sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að í könnun sem stofnunin hafi látið gera komi í ljós að 99,5% fólks reyni að lágmarka matarsóun á heimilunum að einhverju marki sem hljóti að vera til marks um að umhverfisvitund fólks sé til staðar. „Þetta er er að mínu mati ótrúlega hátt hlutfall og mun hærra en það hlutfall þjóðarinnar sem horfir t.d. á Áramótaskaupið á gamlárskvöld! Oft er tilfinningin sú að neikvæðnisraddirnar séu fleiri en þessar tölur gefa til kynna en þegar allt kemur til alls eru umhverfismálin eitthvað sem skiptir fólk verulega miklu máli og það vill taka þátt. Staðreyndin er sú að það er enginn á móti innleiðingu hringrásarhagkerfisins og það er enginn sem græðir á því að auka matarsóun,“ segir Jóhannes Bjarki.

Hann segir að unga fólkið sé alið upp við umhverfis- og loftlagsmál og þekki því málaflokkinn nokkuð vel. Eldra fólk sé hins vegar trúlega meðvitaðra um að nýta hlutina vel.

Leiðirnar sem Umhverfisstofnun fer til þess að koma fagnaðarerindinu á framfæri eru mismunandi og segir Jóhannes að það fari allt eftir því hver markhópurinn sé hverju sinni. Oft séu haldin erindi á fundum og ráðstefnum og þannig náist vel til stjórnenda fyrirtækja. Einnig séu bein samtöl við fyrirtækjastjórnendur. „Til viðbótar höldum við úti samfélagsmiðlum og þar höfum við komist að raun um að Tik Tok er mjög áhrifamikill miðill og til þess fallinn að ná til unga fólksins. Síðan förum við í síðdegisútvarpið á RÚV til þess að ná til þeirra sem eldri eru. Við reynum því að fara fjölbreyttar leiðir til þess að ná til fólks og ég tel að það hafi gengið ágætlega, mér finnst fólk almennt vera mjög móttækilegt fyrir upplýsingum um umhverfismál enda er það svo að þetta er málaflokkur sem er ekki lengur í boði að sneiða hjá. Við skulum hafa í huga að hversdagslegir hlutir eins og úrgangsmál og endurvinnsla snerta þjóðaröryggi og sjálfbærni, svo dæmi séu tekin, umhverfismálin eru svo samofin okkar daglegu tilveru. Ég met það svo að það sé vaxandi áhugi á umhverfismálum og sífellt meiri meðvitund fólks um þennan málaflokk. Og við erum hvergi nærri komin á endapunkt í umhverfishugsun. Ég er mjög bjartsýnn enda finnst mér alltaf vera meira og meira að gerast og metnaður fólks í þessum efnum er að aukast. Það er smám saman að verða auðveldara að ná athygli og fjármagni í umhverfismál og staðreyndin er sú að þetta er málaflokkur sem allir hafa áhuga og skoðun á.“

Og af því að sl. föstudagur var svokallaður svartur föstudagur og í gær var annar mikill neysludagur í verslunum, sem kallaður hefur verið Cyber Monday á ensku eða hinn stóri netverslunardagur, vill Jóhannes vekja athygli á samantekt landlæknisembættisins nýverið á fimm leiðum til vellíðunar. Hún byggir á breskri rannsókn og sú rannsókn var samantekt fjögur hundruð rannsókna út um allan heim til þess að komast að því hvað veiti fólki lífshamingju. Í ljós hafi komið fimm lykilatriði: Að hreyfa sig, mynda tengsl, halda áfram að læra, taka eftir og gefa af sér. „Ekkert af þessu tengist neyslu eða úrgangi. Ég held að við séum að átta okkur betur og betur á þessu,“ segir Jóhannes.

Í samanburði við aðrar þjóðir telur Jóhannes að Íslendingar standi sig nokkuð vel í umhverfismálum. Í matarsóun séum við á pari við aðrar Evrópuþjóðir en t.d. hvað varðar söfnun og endurnýtingu en í t.d. -vinnslu á raftækjum þurfum við að gera betur. „Við seljum gríðarlegt magn af raftækjum en okkur gengur ekki vel að safna þeim aftur. Og það sama á við um t.d. farsíma og túbuskjái. Við söfnum farsímunum niður í skúffu í stað þess að endurnýta ýmislegt úr þeim. Í gömlum símum er eitt og annað af góðmálum sem við gætum endurnýtt, í stað þess að grafa þá úr jörðu og halda þannig áfram að ganga á auðlindir jarðar.“