Fara í efni

Hvar er miðja VMA?

Natan Dýri og Elín Björk Unnarsdóttir, kennari.
Natan Dýri og Elín Björk Unnarsdóttir, kennari.

Hvar er miðja Verkmenntaskólans á Akureyri? Er yfirleitt hægt að finna hana? Já, það er hægt samkvæmt ströngustu stærðfræðiútreikningum. Stærðfræðikennarar lögðust í mikla útreikninga á dögunum og fundu nákvæmlega út hvar miðja skólans er. Grunnur þess að finna miðjuna út er að leggjast í nokkuð flókna flatarmálsreikninga út frá grunnmynd af skólanum. Reikningarnir leiddu í ljós að miðjan er á bókasafni skólans.

Í tilefni alþjóðlega π (pí) dagsins sl. fimmtudag, 14. mars, buðu stærðfræðikennarar nemendum upp á þá skemmtilegu þraut að finna miðju skólans. Þátttakendur skyldu skila lausnum í kassa fyrir klukkan 3.14 sl. fimmtudag. Engin tilviljun að þessi tímasetning var valin því það er einmitt gildi π. Úr réttum lausnum var síðan dregið og reyndist verðlaunahafinn vera Natan Dýri Hjartarson, nemandi á náttúruvísindabraut. Honum var í löngu frímínútunum sl. föstudag afhent gjafabréf að upphæð kr. 6 þúsund sem gildir á Rub23, Sushi Corner, Bautanum eða Pizzasmiðjunni.

En hvað er pí? Jú, það er stærðfræðilegur fasti, skilgreindur sem hlutfallið milli ummáls og þvermál hrings. Með tveimur aukastöfum er pí 3,14. En hins vegar hefur það lengi verið ákveðin íþrótt að reikna út fleiri aukastafi og þeir sem það gera eru skráðir á spjöld sögunnar í Heimsmetabók Guinness. Nýr heimsmethafi var einmitt krýndur á alþjóðlega Pí-daginn, 14. mars sl. Sá heitir Emma Haruka Iwao og er starfsmaður Google í Japan. Við útreikninga sína naut hún aðstoðar risavaxins tölvuvers. Aukastafirnir í hennar útreikningum eru hvorki meira né minna en 31 trilljón. Eldra metið var 22 trilljón aukastafir.

Hér eru frekari upplýsingar um π.   

Verðlaunahafinn Natan Dýri tók tæknina í notkun til þess að finna út miðju skólans. Hann hlóð niður appi á símann sinn, ekki ósvipuðu og skokkarar nota, gekk meðfram bæði norður- og austurhlið skólans og mældi vegalengdir og með því að rýna í grunnmynd af skólanum fann hann nákvæmlega út hvar miðja skólans væri.

Natan Dýri hóf nám við VMA sl. haust. Hann fór í MR úr 9. bekk grunnskóla og var þar einn vetur en kom síðan norður í VMA. Hann kann náminu vel  og er auk þess í námi í skapandi tónlist í Tónlistarskólanum á Akureyri, enda segist hann hafa mikla ánægju af því að búa til tónlist, einkum geri hann grunna í tölvunni sinni í rapptengdri tónlist.