Fara í efni

Hvaða afleiðingar hefur klámvæðing?

Glódís Ingólfsdóttir.
Glódís Ingólfsdóttir.
Í tilefni af 16 daga átaki gegn kynjabundnu ofbeldi, sem hófst 25. nóvember sl., hefur Glódís Ingólfsdóttir, nemi í kynjafræði við VMA, skrifað grein sem ber yfirskriftina „Hvaða afleiðingar hefur klámvæðing?”

Í tilefni af 16 daga átaki gegn kynjabundnu ofbeldi, sem hófst 25. nóvember sl., hefur  Glódís Ingólfsdóttir, nemi í kynjafræði við VMA, skrifað grein sem ber yfirskriftina „Hvaða afleiðingar hefur klámvæðing?”

Grein Glódísar er eftirfarandi:

„Á síðustu árum hefur klámvæðing vaxið hratt í samfélaginu okkar og nær alltaf til yngri hópa. Klám er farið að smeygja sér inn í okkar daglega líf án þess að við tökum eftir því. Sá hópur fólks sem verður fyrir mestum áhrifum af klámvæðingu eru unglingar. Nánast allt afþreyingarefni sem höfðar til unglinga er klámvætt á einhvern hátt. Má þar nefna tónlistarmyndbönd, sjónvarpsþætti, tölvuleiki o.s.frv. Það er þó óhætt að segja að netið sé þar fremst í flokki. Flestir, ef ekki allir unglingar á Íslandi nota netið á einn eða annan hátt og þó ætlunin sé ekki að skoða klám þá er hreinlega erfitt að komast hjá því þar sem vafasamar auglýsingar er að finna allstaðar á netinu og auðvelt að villast óvart inná síður sem sýna einhverskonar klám. Skilaboðin sem verið er að senda unglingum eru að klám sé raunverulegt, eðlilegt og í góðu lagi.

En hvað er klám? Klám er skilgreint sem efni sem sýnir kynlíf/kynfæri í tengslum við misnotkun eða niðurlægingu á einhvern hátt. Klám inniheldur oft ofbeldi og sendir þau skilaboð að það sé í lagi að beita ofbeldi og að það sé hluti af eðlilegu kynlífi. Einnig vilja margir meina að klám leiði til þess að fólk sem horfir á það fái brenglaðar hugmyndir um kynlíf. Þess vegna er mikilvægt að unglingar fái fræðslu um muninn á klámi og kynlífi svo að þeir átti sig á því hvar mörkin liggja.

Ef ætlunin er að berjast fyrir jafnrétti á Íslandi er ekki á sama tíma hægt að samþykkja klám og leyfa klámvæðingunni að halda áfram að aukast. Klám sýnir konur oft á niðurlægjandi hátt þar sem þær eru á valdi karla og fá sjálfar engu að ráða um hvað er gert við þær. Með þessu er verið að samþykkja að konur séu á valdi karla og að niðurlæging á konum, og fólki yfirhöfuð sé í lagi.

Auglýsingar sýna oft mjög fáklætt fólk og sum tónlistarmyndbönd eru orðin það gróf að maður gæti alveg eins verið að horfa á atriði úr klámmynd. Er virkilega nauðsynlegt að sýna fáklæddar eða naktar manneskjur til þess að fá fólk til að horfa á tónlistarmyndbönd eða kaupa einhverja ákveðna vöru? Viljum við að börn hafi greiðan aðgang að klámi og að unglingar læri að ofbeldi, valdbeiting og niðurlæging sé hluti af eðlilegu kynlífi? Klámvæðing hefur áhrif á okkur öll. Ef við samþykkjum þá röksemd að umhverfi okkar hafi áhrif á okkur, þá er líklegt að svo sé einnig um klámvæðinguna. Sumir haldi því fram að nauðganir og ofbeldi tengist klámi, þar sem klám sendir þau skilaboð  að kynlíf án samþykkis sé í lagi.

Til þess að minnka klámvæðinguna þurfa fjölmiðlar, þáttagerðarmenn og auglýsendur að taka sig á. En við þurfum líka að líta í eigin barm. Við þurfum að vera meðvituð um að þetta er vandamál og við þurfum vilja til þess að breyta þessu. Það þarf að auka fræðslu á þessu málefni bæði hjá fullorðnum og unglingum.“