Fara í efni

Hvað er brautabrú?

Harpa Jörundardóttir.
Harpa Jörundardóttir.

Brautabrú er ein af námsbrautum skólans og núna á haustönn eru þar skráðir 48 nemendur. Harpa Jörundardóttir, sviðsstjóri brautabrúar og starfsbrautar, orðar það svo að brautabrúin sé brú á milli grunnskóla og annarra námsbrauta  í VMA. Inn á námsbrautina innritist nemendur sem hafi ekki náð tilskildum árangri í kjarnafögum úr grunnskólanum, íslensku, ensku eða stærðfræði.

„Fyrsta veturinn er áhersla lögð á að hjálpa nemendum á brautabrú að ná því sem upp á vantar í kjarnagreinunum, sem í mörgum tilfellum er ekki mikið. Að öðru leyti eru þeir í venjubundnu námi eins og aðrir nýnemar. Þó taka nemendur á brautabrú meira verklegt en aðrir nýnemar á stúdentsprófnámsbrautum. Í því felst að þeir taka verklegan áfanga á haustönn sem heitir náms- og starfsfræðsla og hann felur í sér kynningu á verknámsbrautum skólans, tölvuforritun og FAB-Lab. Á vorönn höfum við síðan boðið upp á stærri verknámsáfanga fyrir nemendur á brautabrú í byggingadeild, rafiðngreinum, málmsmíði og á matvælabraut. Nemendur taka þá 8-10 tíma á viku í þeim verkáfanga sem þeir velja. Þessi kynning á verknámsgreinunum hefur auðveldað mörgum nemendum að finna út hvað þeir vilja læra í framhaldinu og hvað þeir vilja ekki læra. Það er okkur alltaf mikið ánægjuefni þegar námið á brautabrú verður til þess að vísa óráðnum nemendum veginn í náminu,“ segir Harpa.

Almennt segir hún að brautabrúin hafi gefið mjög góða raun og nemendur nái í flestum tilfellum að vinna upp sem þeir ljúka ekki með tilskildum árangri í grunnskóla. Þó sé vissulega alltaf eitthvað um brottfall en ætla megi að um 95% nemenda á brautabrú haldi áfram námi að loknu þessu fyrsta ári í VMA, annað hvort til stúdentsprófs eða á verknámsbrautum.

Það er gömul saga og ný að kjarnagreinarnar stærðfræði, íslenska og enska geta reynst sumum nemendum erfiður þröskuldur. Harpa segir að í nemendahópnum á brautabrú sé stærðfræðin erfiðasta hindrunin en einnig reynist íslenskan mörgum snúin. Núna komi enskan hins vegar betur út hjá grunnskólanemum en fyrir nokkrum árum.

Harpa segir að í sumum tilfellum hafi nemendur á brautabrú ekki náð tilskildum námsárangri í kjarnagreinum vegna einhverra skilgreindra námsörðugleika. Þar megi m.a. nefna lesblindu og talnablindu. Þessa nemendur sé leitast við að aðstoða sem kostur er með ýmsum hætti og til móts við þá sé t.d. komið með lengri próftíma. Harpa segist tengja vel við þá örðugleika sem nemendur með lesblindu glími við enda sé hún sjálf lesblind, það hafi ekki uppgötvast fyrr en hún var 26 ára gömul og byrjuð í námi til kennsluréttinda að loknu grunn- og framhaldsskóla og BA-prófi í ensku. Með því að nýta öll þau hjálpartæki sem nú til dags séu í boði geti fólk með lesblindu auðveldað sér námið.

„Nemendur á brautabrú þurfa í mörgum tilfellum að leggja á sig mikla vinnu til þess að komast í það nám sem hugur þeirra stendur til. Við gerum okkar besta til þess að leggja þeim lið en þegar upp er staðið er vinnan alltaf nemendanna. Eitt af því sem við gerum öðruvísi á þessari námsbraut er að hafa heimanámsaðstoð í stundaskrá nemenda. Þetta er þróunarverkefni sem við höfum verið með undanfarin ár. Faggreinakennarar eru til taks einu sinni viku í námsveri nemendum til aðstoðar og þetta hefur gefið mjög góða raun og stórbætt námsárangur þeirra. Fyrir marga nemendur er afar mikilvægt að ljúka sinni daglegu námsvinnu hér í skólanum eins og kostur er,” segir Harpa Jörundardóttir.