Fara í efni

Húsasmiðjan gefur byggingadeild VMA fræsara

Benedikt, Sigríður Huld, Kristin Dögg og Helgi.
Benedikt, Sigríður Huld, Kristin Dögg og Helgi.

Það er gömul saga og ný að gott er að eiga góða að. Lengi hefur byggingadeild VMA vantað góðan fræsara til þess að nota við kennslu. Sá gamli er fyrir nokkru búinn að syngja sitt síðasta og því vantaði byggingadeildina sárlega góðan fræsara. Þegar Húsasmíðan á Akureyri hætti timburvinnslu fyrir nokkrum mánuðum voru nokkur góð tæki verkefnalaus, þar á meðal fræsari. Úr varð að Húsasmiðjan ákvað að færa fræsarann byggingadeildinni að gjöf, þar sem hann gæti komið að góðum notum. Fræsaranum hefur nú verið komið fyrir í húsnæði byggingadeildarinnar og er kominn í notkun.

Þessi góða gjöf Húsasmiðjunnar var innsigluð formlega í gær þegar Kristín Dögg Jónsdóttir, rekstrarstjóri Húsasmiðjunnar á Akureyri, kom í heimsókn í byggingadeildina og skoðaði aðstöðuna með Sigríði Huld Jónsdóttur skólameistara, Benedikt Barðasyni aðstoðarskólameistara og Helga Val Harðarsyni brautarstjóra byggingadeildar. 

Kristín Dögg sagði ánægjulegt að geta lagt byggingadeildinni lið með þessum hætti. Húsasmiðjan hefði ekki haft lengur not fyrir fræsarann og því væri ánægjulegt að hann nýttist byggingadeildinni vel. Sigríður Huld skólameistari þakkaði fyrir gjöfina fyrir hönd skólans og kvað hana nýtast vel.

Húsasmiðjan á Akureyri hefur lengi verið til húsa á Lónsbakka, norðan Lónsár, þar sem áður var Byggingavörudeld KEA, en Kristín Dögg er bjartsýn á að fyrirtækið geti futt í febrúar 2022 í nýtt hús við Goðanes sem nú er verið að innrétta og ganga frá að utan.