Fara í efni

Húsasmiðir og múrarar þreyta sveinspróf

Húsasmíðanemar í sveinsprófi. Mynd: Heiðar Árnason
Húsasmíðanemar í sveinsprófi. Mynd: Heiðar Árnason

Dagana 20.–22. maí sl þreyttu fimmtán húsasmíðanemar sveinspróf í húsnæði byggingadeildar VMA. Sveinsprófið skiptist í skriflegt próf, smíðaverkefni og brýnslu.

Í skriflega prófinu var spurt út í allskonar þætti sem húsasmiður þarf að kunna skil á, svo sem mál og mælikvarða, inn– og útveggi, þök gólf og grunna, hurðir og glugga, steypumót, bendistál og vinnupalla, teikningar og innréttingar, timbur, stál og spón. Einnig þurftu nemar að efnistaka sólpall samkvæmt teikningu. Í smíðaverkefninu var smíðaður snúinn stigi og var reynt á hæfni og nákvæmni próftakans í meðferð handverkfæra, mælitækja, lestur teikninga og vinnu með handfræsara. Loks þurftu próftakar að brýna og leggja út 25 mm sporjárn og hefiltönn.

Fjórtán af fimmtán þeirra sem gengust undir sveinspróf að þessu sinni brautskráðust sl. laugardag frá VMA sem húsasmiðir en sá fimmtándi útskrifaðist í desember á sl. ári.

Síðastliðinn laugardag útskrifuðust fimmtán húsasmiðir – sá fimmtándi á eftir að ljúka hluta vinnustaðanámsins og gat því ekki gengist undir sveinspróf að þessu sinni.

Uppgangur í byggingagreinum – aukin aðsókn í byggingadeild
Það þarf ekki að hafa um það mörg orð að eftir mörg mögur ár í byggingageiranum í kjölfar bankahrunsins hefur verulega rofað til og nú er svo komið að almennt er mikið að gera hjá öllum byggingariðnaðarmönnum. Halldór Torfi Torfason, brautarstjóri byggingagreina, segir að aukin umsvif í byggingageiranum hafi skilað sér í fjölgun umsókna um nám í byggingagreinum í VMA næsta vetur. Þrátt fyrir aukna aðsókn segir Halldór Torfi að ennþá sé pláss fyrir nemendur í deildinni næsta vetur og því er um að gera að geyma það ekki að sækja um.

Þrír múraranemar í sveinspróf í þessari viku
En það eru ekki aðeins húsasmíðanemar úr VMA sem þreyta sveinspróf þessa vikuna því í dag, mánudag, hefst sveinspróf múraranema í Reykjavík og verður prófað alveg fram á föstudag. Þrír nemendur úr VMA, sem allir brautskráðust frá skólanum sem múrarar sl. laugardag, þreyta sveinsprófið. Bjarni Bjarnason, umsjónarmaður múraranámsins í VMA, segir afar ánægjulegt að svo margir nemendur úr VMA þreyti sveinspróf í þessu fagi á einu bretti, slíkt hafi ekki gerst til fjölda ára. „Ef allt gengur að óskum verða þeir enn fleiri eða átta næsta vor. Þetta er bara mjög ánægjulegt,“ segir Bjarni.