Fara í efni

Húsasmíði og flug

Ísak Svavarsson.
Ísak Svavarsson.

Ísak Svavarsson stefnir að því að verða flugmaður, með millilendingu í húsasmíði í byggingadeild VMA. „Það er stefnan að fara í flugið en ég veit til þess að atvinnuöryggi ungra flugmanna er ekki mikið yfir vetrarmánuðina og því er skynsamlegt að hafa eitthvað annað upp á að hlaupa. Þess vegna ákvað ég að fara í húsamíði í VMA,“ segir Ísak en hann kom í VMA sl. haust að loknum 10. bekk í Brekkuskóla.

„Mér finnst námið í húsasmíðinni mjög skemmtilegt – auðvitað eru áfangarnir þó misskemmtilegir en það þarf þolinmæði til þess að vinna hlutina vel. Mér finnst vélavinnan skemmtilegust. Stefnan er að ljúka húsasmíðinni og síðan hef ég áhuga á því, að minnsta kosti eins og staðan er núna, að fara í flugnám. Ég og vinur minn úr Brekkuskóla, Bárður Hólmgeirsson, fylgjumst að í þessu og stefnum báðir í flugið. Bárður er byrjaður í einkaflugmannsnáminu en ég ætla aðeins að bíða með það,“ segir Ísak og bætir við að áhugi hans á fluginu hafi vaknað fyrir alvöru eftir að hann átti þess kost að fara í kynnisflug hjá Flugskóla Akureyrar.