Fara í efni

Hugmyndir um íþróttabraut til stúdentsprófs

Hinrik Þórhallsson.
Hinrik Þórhallsson.
Íþróttafræði er tveggja ára námsbraut í VMA. Hinrik Þórhallsson segir að unnið sé að mótun víðtækari íþróttabrautar til stúdentsprófs og hann væntir þess að slík braut verði að veruleika innan fárra ára.

Íþróttafræði er tveggja ára námsbraut í VMA. Hinrik Þórhallsson segir að unnið sé að mótun víðtækari íþróttabrautar til stúdentsprófs og hann væntir þess að slík braut verði að veruleika innan fárra ára.

„Við leggjum áherslu á að undirbúa nemendur undir frekara nám tengt íþróttafræði; íþróttanám, sjúkraþjálfun og jafnvel læknisfræði. Við byggjum námið upp samkvæmt forskrift ráðuneytisins og draumurinn er að víkka námið í íþróttafræði út og bjóða upp á víðtækari námsbraut til stúdentsprófs í stað tveggja eins og það er nú. Við erum núna að móta hvernig slíkt nám gæti verið. Nemendur sem ljúka  íþróttabraut og fara síðan á t.d. náttúrufræðibraut til stúdentsprófs hafa mjög góðan grunn að mínu mati fyrir þessar greinar sem ég nefndi,“ segir Hinrik og bætir við að yfirgnæfandi meirihluti nemenda sem fari á tveggja ára íþróttabraut í VMA haldi áfram námi til stúdentsprófs og velji þá gjarnan að fara á annað hvort félagsfræða- eða náttúrufræðibraut.

Hinrik segist ekki í vafa um að spurn sé eftir námi á íþróttabraut til stúdentsprófs. „Ég er ekki í nokkrum vafa um það og það er mín tilfinning að þessi útvíkkun núverandi íþróttabrautar myndi stækka hana umn helming. Ég vænti þess að sjá þetta gerast innan fárra ára.“

Hinrik segir að meirihluti þeirra nemenda sem velji íþróttabraut hafi á einn eða annan hátt stundað íþróttir í gegnum tíðina og því séu þessi gen í blóði nemenda.

Hinrik segir að það sem hafi eilítið hamlað vexti íþróttabrautarinnar í VMA sé aðstöðuleysi. Lengi vel hafi verið lítil sem engin íþróttaaðstaða í skólanum en hún hafi þó batnað umtalsvert þegar rýmið í kjallara miðrýmis var innréttað fyrir íþróttir. En betur má ef duga skal. Eftir sem áður sé ekki íþróttahús á lóð VMA en deiliskipulag lóðar skólans til framtíðar, sem nú er verið að vinna, geri ráð fyrir að það muni koma þegar fram líða stundir. „Íþróttahús hér myndi gjörbreyta allri aðstöðu til íþróttakennslu í skólanum og jafnframt yrði aðstaða íþróttabrautarinnar allt önnur og betri.“

Hinrik Þórhallsson er íþróttakennari að mennt og nam síðan íþróttafræði og uppeldis- og kennslufræði. Hann kenndi íþróttir í fjögur ár við MA en starfsaldur hans í VMA er jafn langur sögu skólans því hann er einn af þeim sem kom til starfa hjá VMA árið 1984, fyrir þrjátíu árum.  Reikningsdæmið er einfalt; Hinrik var þá þrítugur að aldri því hann fagnaði sextugsafmæli sínu í gær, 18. febrúar.  „Ég er eins og ein af mublunum í þessum skóla. Hér hefur mér liðið vel, þetta er góður vinnustaður og andinn góður. Á sínum tíma vorum við full bjartsýni um að þetta yrði um 700 manna skóli og við þann fjölda var  rými eins og til dæmis Gryfjan miðað.  Hin síðari ár hafa hins vegar verið á bilinu 1100 til 1300 nemendur og því hefur þrengt verulega að á ýmsum sviðum í húsnæðismálum, t.d. er aðstaða nemenda ekki nógu góð.“

Hinrik hefur sem sagt kennd íþróttir og íþróttatengd fög í meira en þrját áratugi og hann segir að því verði ekki neitað að líkamlegt atgervi ungs fólks hafi farið hríðversnandi. „Þetta hefur versnan mjög með tölvuvæðingunni. Það segir sig sjálft að það hefur ekki góð áhrif á nemendur að sitja yfir tölvunum langt fram á nætur. Það kemur einhvers staðar fram. Ef vel ætti að vera þyrftu nemendur í skóla eins og VMA að hreyfa sig á hverjum einasta degi – þó ekki væri annað en að fara í stutta göngutúra. Þessi þróun er ekki góð. Fyrir marga krakka á þessum besta aldri er það hreinlega vandamál að komast upp á Súlur. Það segir okkur eitthvað um þessa óheillaþróun. Til viðbótar við t.d. mikla tölvunotkun ungs fólks er mataræði í mörgum tilfellum ekki til að hrópa húrra yfir og krakkar vinna þar að auki mikið. En það má þó ekki gleyma því að það er töluverður hópur ungs fólks sem stundar reglulega íþróttir og er í góðu formi.“