Fara í efni

Hugmyndir að lokaverkefnum vélstjórnarnema kynntar

Vélstjórnarnemar á kynningunni sl. föstudag.
Vélstjórnarnemar á kynningunni sl. föstudag.

Á vorönn er einn af áföngum útskriftarnema í vélstjórn sérstakt lokaverkefni að eigin vali. Nú þegar eru nemendur komnir af stað með verkefnin og mátti greina af kynningu þeirra sl. föstudag á hugmyndum að lokaverkefnunum að þau eru afar áhugaverð og fjölbreytt.

Framundan er mikil vinna nemenda við lokaverkefnin, sem auðvitað eru misjafnlega umfangsmikil. Verkefnunum verður skilað síðari hluta apríl.

Um er að ræða eftirfarandi átta verkefni:

Guðmundur Fannar Þórðarson og Höskuldur Sveinn Björnsson.
Verkefni þeirra miðar að því að nýta róbótatæknina um borð í fiskiskipum en hún hefur til þessa að mjög takmörkuðu leyti hafið innreið sína í íslenska fiskiskipaflotann. Verkefnið verður unnið í samráði við Rafeyri á Akureyri sem hefur yfir róbót að ráða sem hefur 120 kg lyftigetu og með 2,4 m vinnuradíus. Í stórum dráttum er hugmynd þeirra Guðmundar Fannars og Höskuldar Sveins að forrita róbóta til þess að færa kassa af færibandi yfir á vörubretti – sem myndi nýtast um borð í fiskiskipum.

Ásgeir Sigurðsson, Magnús Þór Árnason og Guðmundur Kristjánsson.
Verkefni þeirra þremenninga fellst í því að bilanagreina og lagfæra og/eða gera tillögur að lagfæringum á loftræstikerfi sem er í kennsluhúsnæði vélstjórnar í VMA. Í þessu felst m.a. að lagfæra og betrumbæta teikningar í I.G.S.S., skipta um servomótor, koma reglu á lofthitastigið, fara yfir kælikerfið og fara yfir hitara í kerfinu og koma þeim í lag.

Kjartan Svavarsson.
Kjartan er frá Áreyjum í Reyðarfirði þar sem hafa verið gerðar tilraunir með repjurækt. Verkefni hans miðar að því að smíða vélbúnað til þess að breyta repjuolíu í lífdísel. Búnaðurinn samanstendur í stórum dráttum af blöndunartanki, hitunartanki og vöskunarbúnaði en gert er ráð fyrir að vöskunin verði í sama tanki og hitunin.

Ásgeir Þór Hallgrímsson.
Ásgeir Þór kemur frá Árhólum í Laxárdal í Suður-Þingeyjarsýslu þar sem er ágætlega búið fjárhús með gjafagrindum. Gjafagrindurnar skammta heyið til ánna og þarf að breyta stillingum á gjafagrindunum handvirkt. Hugmynd Ásgeirs Þórs miðar að því að koma fyrir sjálfvirkum búnaði á gjafagrindurnar sem m.a. samanstæði af tjökkum og iðntölvu. Með því að hafa sjálfvirka stýringu á gjafagrindurnar næðist fram jafnari og betri fóðrun fyrir ærnar.

Hermann Sæmundsson og Þorbergur Guðmundsson.
Verkefni þeirra gengur út á að smíða einfalt eimingartæki sem myndi nýta hitaveituvatn til að sjóða.

Gunnar Örn Bragason.
Í verkefni sínu skoðar Gunnar Örn svokallaðar leguskemmdir í rafmagnsmótorum. Lítið sem ekkert er til um þetta á íslensku en vandamálið er þó víða vel þekkt hjá t.d. hérlendum orkufyrirtækjum. Skemmst er að minnast hávaða frá mótorum í tengslum við borholur Norðurorku skammt frá Hjalteyri við vestanverðan Eyjafjörð. Þetta vandamál er líka vel þekkt hjá HS Orku þar sem Gunnar Örn starfaði sl. sumar og fékk sérstakan áhuga á þessu máli. Markmið Gunnars Arnar er að öðlast skilning á þessu fyrirbæri, afla upplýsinga um það, setja sig í samband við sérfræðinga sem hafa kynnt sér það o.s.frv. og skila síðan skýrslu um hvers hann verður vísari.

Örn Friðriksson.
Örn var fjarverandi þegar kynningin á lokaverkefnunum var sl. föstudag en verkefni hans lýtur að því að vinna varma úr köldum sjó.

Arnar Þór Björnsson.
Arnar Þór var sömuleiðis fjarverandi sl. föstudag. En hann setti saman greinargott myndband um það sem hann fæst við í sínu verkefni, sem er að tæknivæða vinnslu grásleppuhrogna. Hér má sjá þetta myndband Arnars Þórs.