Fara í efni

Hugarfarið skiptir öllu máli

Björgvin Snær Magnússon.
Björgvin Snær Magnússon.

Björgvin Snær Magnússon, nemandi á fyrsta ári félags- og hugvísindabrautar VMA, er í hópi öflugustu karatemanna landsins. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann keppt á nokkrum karatemótum í útlöndum, m.a. á Smáþjóðaleikunum í San Marino,  og auðvitað á fjölmörgum mótum hér innanlands. Björgvin Snær sigraði sinn aldursflokk á Reykjavíkurleikunum á dögunum. Hér sést hann á verðlaunapallinum á Reykjavíkurleikunum og hér er Björgvin á verðlaunapalli, þar sem hann fékk silfurverðlaun, á móti í Englandi árið 2019.

Björgvin Snær var í Brekkuskóla og keppti m.a. í liði skólans sl. vetur í Skólahreysti. Hann hóf nám við VMA sl. haust. Karate hefur Björgvin stundað frá fjögurra ára aldri og segir hann að það sem skipti öllu máli sé rétt hugarfar. Til þess að ná árangri þurfi mikla einbeitingu og vilja til þess að ná langt.

Hann segist æfa því sem næst daglega, seinni part dags, og oft sé hann fram á kvöld við æfingar. Hann æfir og keppir fyrir Karatefélag Akureyrar en einnig æfir hann MMA – blandaðar bardagalistir hjá Mjölni í Reykjavík. Björgvin dregur ekki dul á að hann stefni á að keppa í MMA í framtíðinni, karate sé mjög góð undirstaða fyrir þær. Hann þarf hins vegar að ná átján ára aldri til þess að fá að keppa í blönduðum bardagalistum.

Í karate og blönduðum bardagalistum þarf að leggja áherslu á fjölmargt; t.d. snerpu, tækni og styrk. Í þessum íþróttum eins og öðrum íþróttum skapar æfingin meistarann. Björgvin segir að draumur hans sé að verða atvinnumaður í blönduðum bardagalistum. Hann segist gera sér grein fyrir að sú leið sé ekki bein og breið en allt sé hægt. Það hafi Gunnar Nelson sýnt.

Kórónuveirufaraldurinn setti strik í reikninginn hjá Björgvin Snæ. Ekkert mót var haldið í tíu mánuði og voru Reykjavíkurleikarnir fyrsta mótið síðan snemma á síðasta ári. Um tíma máttu karateiðkendur ekki æfa en Björgvin segist ekki hafa látið það á sig fá og stundað ýmsar æfingar úti í staðinn, m.a. á hlaupabrautinni á Þórsvelli. Til þess að ná markmiðum sínum í framtíðinni hafi ekki verið í boði á láta deigan síga með æfingar, horfa verði til bjartari tíma eftir Covid.