Fara í efni

Hönnuðu og smíðuðu próteinskilju fyrir rækjuiðnaðinn

Unnar (t.v.) og Axel við próteinskiljuna.
Unnar (t.v.) og Axel við próteinskiljuna.

Tveir nemendur í vélstjórn, Axel S. Eyjólfsson og Unnar B. Egilsson, sem báðir eru frá Sauðárkróki, hafa hannað og smíðað próteinskilju sem lokaverkefni í vélstjórn frá VMA. Þetta er sannarlega metnaðarfullt verkefni og ef að líkum lætur mun skilvindan verða til þess að vinna megi verðmætt prótein úr affallsvatni í rækjuvinnslu. Verkið er unnið í samstarfi við Fálkann hf. í Reykjavík og þrjú fyrirtæki á Sauðárkróki; Iceprotein ehf., Vélaverkstæði KS og Tengil ehf.

Tveir nemendur í vélstjórn, Axel S. Eyjólfsson og Unnar B. Egilsson, sem báðir eru frá Sauðárkróki, hafa hannað og smíðað próteinskilju sem lokaverkefni í vélstjórn frá VMA. Þetta er sannarlega metnaðarfullt verkefni og ef að líkum lætur mun skilvindan verða til þess að vinna megi verðmætt prótein úr affallsvatni í rækjuvinnslu. Verkið er unnið í samstarfi við Fálkann hf. í Reykjavík og þrjú fyrirtæki á Sauðárkróki; Iceprotein ehf., Vélaverkstæði KS og Tengil ehf.

Þeir Axel og Unnar eru báðir með meistararéttindi í vélvirkjun en ákváðu að bæta við sig vélstjórninni og ljúka námi í vor. Að loknum sjótíma verða þeir báðir komnir með D-réttindi í vélstjórn, sem þýðir ótakmarkaða vélastærð. Báðir stefna þeir á sjóinn og hafa nú þegar fengið fast vélstjórapláss á togurum FISK Seafood, Axel fer á ísfisktogarann Klakk SK-5 en Unnar á frystiskipið Arnar HU-1.

Báðir höfðu þeir lokið B-réttindum áður en þeir komu í VMA til þess að bæta við sig C- og D-réttindum í vélstjórn. Axel, sem er 32ja ára, hefur verið í þrjú ár í VMA og Unnar, sem er 25 ára, í tvö ár.

Þeir félagarnir unnu lengi saman á Vélaverkstæði KS á Sauðárkróki . Þeir nutu góðs af þeirri starfsreynslu við hönnun og smíði próteinskiljunnar og raunar fengu þeir aðstöðu á á verkstæðinu til smíðinnar.

„Við lögðum af stað með það í huga að nýta prótein úr affallsvatni í rækjuvinnslum.  Þessi tækni er þekkt erlendis og þá fyrst og fremst í því skyni að hreinsa efni úr affallsvatni og nýta vatnið. Hér er þessu í raun öfugt farið. Efnin eru hreinsuð úr vatninu og þau hirt og unnið úr þeim prótein. Núna fer affallsvatnið úr rækjuvinnslum í sjóinn og í leiðinni sjáum við á bak verðmætum. Með þessari skilju er þess freistað að ná þessum verðmætum úr vatninu. Í einföldu máli má lýsa þessu þannig að loftbólum er blandað við vatnið og eftir því sem loftbólurnar verða minni, því betri er skiljan og árangurinn betri.  Affallsvatninu er dælt í skiljuna að neðan og þar er loftbólufylltu vatni dælt saman við. Á leiðinni upp að vatnsyfirborðinu bindast loftbólurnar þurrefninu í affallsvatninu og fleytir því upp. Þar eru sköfur sem skafa þurrefnin af vatnsyfirborðinu í sérstakt hólf og út úr skiljunni. Við erum búnir að gera prufur með skiljuna og hún virðist virka fullkomlega. Það er vitað að í þessum þurrefnum eru dýr prótein og einnig er vitað að þarna er rautt litarefni, sem kemur úr rækjunni. Þetta efni er eftirsótt til fóðurgerðar fyrir bleikju, til þess að ná fram réttum lit í holdið. Slík efni eru búin til á tilraunastofum og eru gríðarlega dýr, en þarna opnast möguleiki á að vinna þetta náttúrulega efni í þessu skyni.
Vissulega var mikil yfirlega að koma þessu heim og saman.  Við hönnunina og smíðina lögðum við saman ýmsar hugmyndir og útfærslur sem við öfluðum okkur m.a. í gegnum internetið  víða að úr heiminum. Við vitum að það hefur verið unnið að því að smíða prótótýpu af einhverju líku þessu fyrir rækjuiðnaðinn úti í Kanada, en það hefur ekkert verið látið uppi um það meir.
Við erum mjög sáttir við útkomuna og skiljan virðist virka mjög vel og í samræmi við væntingar. Það var gerð tilraun með þetta hjá rækjuvinnslunni Dögun á Sauðárkróki og við glöddumst mjög yfir niðurstöðunum sem  hún leiddi í ljós.
Við byrjuðum í hugmyndavinnunni í desembersl.  en smíðin sjálf hófst um miðjan janúar. Við höfum smíðað skiljuna á kvöldin og um helgar fyrir vestan. Það hefur verið virkilega gaman að vinna að þessu verkefni og ekki síst gefur það manni mikið að vita  að skiljan virkar eins og til var ætlastd og á vonandi eftir að nýtast mjög vel,“ segja þeir Axel S. Eyjólfsson og Unnar B. Egilsson.

oskarthor@vma.is