Fara í efni

Hofsá og heimspekilegar hugrenningar

Þorsteinn Viðar Hannesson við akrýlverk sín.
Þorsteinn Viðar Hannesson við akrýlverk sín.

Í vor lýkur Þorsteinn Viðar Hannesson námi af myndlistarlínu listnáms- og hönnunarbrautar VMA. Þegar hann hóf nám í VMA haustið 2017 komu ýmsar námsleiðir til greina en listnámið var niðurstaðan. Hann rifjar upp að hann hafi alltaf haft gaman að því að teikna og einn veturinn í efri bekkjum Þelamerkurskóla hafi myndmenntakennarinn kennt blöndun lita og málun og það hafi ýtt undir áhugann á myndlistinni.

Þessa dagana eru tvær akrýlmyndir upp á vegg gegnt austurinngangi VMA sem Þorsteinn málaði í áfanga hjá Björgu Eiríksdóttur á haustönn. Önnur þeirra er landslagsmynd sem sýnir Hofsá, fyrirmyndin blasir við í nánast túnfætinum heima hjá Þorsteini Viðari í Ytri-Brekku í Hörgársveit. Hin myndin hefur dekkra yfirbragð og ber heitið Pílagrímsferðin. Þorsteinn segir að baki henni liggi ýmsar heimspekilegar pælingar sem hafi orðið smám saman til um leið og hann vann verkið. Á þessum tíma segist Þorsteinn hafa setið heimspekiáfanga, sem hafi verið mjög áhugaverður og vakið ýmsar hugrenningar.

Listagenin eru til staðar í fjölskyldunni því móðir Þorsteins smíðar gripi af ýmsum toga og tvær systur hans hafa einnig verið í listnámi.

Þorsteinn segist ekki hafa mótaðar hugmyndir enn sem komið er um hvað taki við að loknu náminu í VMA. Það komi í ljós í fyllingu tímans.