Höfðinglegur stuðningur við nám á listnáms- og hönnunarbraut VMA
Óhikað má segja að Bryndís Arnardóttir – Billa hafi verið ein af frumkvöðlum í kennslu á listnámsbraut VMA, þar sem hún starfaði um árabil. Billa var skapandi myndlistarmaður og hún hafði einstaka hæfileika í miðlun þekkingar sinnar og reynslu til nemendanna í VMA. Einnig stofnaði hún og rak Listfræðsluna um tíma, kenndi á háskólastigi sem og í fullorðinsfræðslu í SÍMEY þar sem hún ruddi brautina í myndlistarkennslu með fyrrum samkennara sínum í VMA, Guðmundi Ármanni Sigurjónssyni. Billa lést árið 2022, 62 ára að aldri.
Í kjölfar fráfalls Billu stofnuðu börn hennar minningarsjóð í hennar nafni með það að markmiði að styðja bæði við konur og nemendur í myndlistarnámi. Sjóðstjórn ákvað að styrkja nemendur á listnáms- og hönnunarbraut VMA um 1,8 milljón króna er skyldi varið til kaupa á námsgögnum og -búnaði er nýttist þeim sérstaklega vel. Nú þegar hefur hluta af þessum fjármunum verið varið til kaupa á beinagrind, þremur hauskúpum (sem kemur að mjög góðum notum í módelteikningu), skjávarpa, stórum pappírsskurðarhníf og skurðarbúnaði fyrir froðuplast. Ekki liggur endanleg ákvörðun um í hvað þeir fjármunir fara sem út af standa en víst er að óskalistinn er langur.
Síðastliðinn föstudag komu móðir Billu, Arnheiður Kristinsdóttir, og barnabarn hennar, Ronja Axelsdóttir, í heimsókn á listnáms- og hönnunarbraut og afhentu styrkinn með formlegum hætti. Kennarar og nemendur við brautina og Anna María Jónsdóttir, sviðsstjóri stúdentsprófsbrauta, veittu honum viðtöku og færðu aðstandendum Minningarsjóðs Bryndísar Arnardóttur innilegar þakkir fyrir höfðinglega gjöf og þá hlýju og stuðning við nám og starf nemenda á listnáms- og hönnunarbraut sem gjöfin ber vitni um. Anna María sagði það skólanum og nemendum hans ómetanlegt að fá slíkan stuðning til að efla starfið og nám nemenda og undir það tekur Björg Eiríksdóttir kennari, þakklæti sé kennurum listnáms- og hönnunarbrautar efst í huga og víst sé að þessi höfðinglega gjöf nýtist nemendum afar vel í námi sínu við listnáms- og hönnunarbraut VMA.
Hilmar Friðjónsson kennari var með myndavélina á lofti og tók þessar myndir við þetta tækifæri.