Fara í efni

Höfðingleg gjöf Húsheildar, Hyrnu og Þórs til byggingadeildar VMA

Gjöfin er heldur betur vegleg.
Gjöfin er heldur betur vegleg.

Það er aldrei of oft undirstrikað hversu ómetanlegt það er fyrir VMA að eiga gott samstarf við atvinnulífið og njóta stuðnings þess. Í vikunni var þetta enn og aftur undirstrikað þegar byggingarfyrirtækin Húsheild og Hyrna og sölu- og þjónustufyrirtækið Þór hf. færðu byggingadeild VMA að gjöf stóran pakka af vélbúnaði og verkfærum.

Húsheild ehf. og Hyrna ehf. (dótturfélag Húsheildar) eru umfangsmikil fyrirtæki á byggingarmarkaði á Akureyri og nágrenni og raunar um allt land og Þór hf. hefur langa sögu í þjónustu við byggingariðnaðinn sem m.a. umboðsaðili Makita rafmagnsverkfæranna.

Af hálfu Húsheildar og Hyrnu var Anton Ingi Þórarinsson verkstjóri við afhendingu verkfærapakkans og af hálfu Þórs hf. Elvar Jónsteinsson sölustjóri á Norðurlandi og Þórður Birgisson sölumaður. Gjöfinni veittu viðtöku Helgi Valur Harðarson, brautarstjóri byggingadeildar, og Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari. Nefndu Helgi Valur og Sigríður Huld við þetta tækifæri hversu ómetanlegt það væri fyrir skólann að fá slíkan stuðning atvinnufyrirtækja þegar þyrfti að ráðast í aðkallandi endurnýjun velbúnaðar. Mikilvægt væri að nemendur lærðu á besta mögulegan vélbúnað hverju sinni í námi sínu. 

Elvar Jónsteinsson sagði ánægjulegt fyrir Þór hf. að geta lagt starfi byggingardeildar VMA lið með þessum hætti, mikilvægt sé að styðja eins og kostur er við námið. 

Byggingarfyrirtækið Húsheild var stofnað árið 2007 og hefur haslað sér völl víða um land, m.a. byggt Fosshótel Mývatn, unnið að endurbyggingu Icelandair Hótels í Mývatnssveit, byggt þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi, smíðað tvær brýr á Snæfellsnesi, unnið að endurbyggingu bústaðar forsætisráðherra á Þingvöllum, byggt gestastofu fyrir Vatnajökulsþjóðgarð á Kirkjubæjarklaustri og margt fleira. Verkefnin eru ólík og af ýmsum toga. Húsheild, sem hefur aðsetur í Mývatnssveit, keypti Hyrnu á Akureyri undir lok síðasta árs og segir Ólafur Ragnarsson aðaleigandi beggja fyrirtækja að í stórum dráttum sé Hyrna eftir sem áður með verkefni fyrst og fremst á Akureyri og í nágrenni en Húsheild sé með verkefni út um allt land. Samanlagður fjöldi starfsmanna beggja fyrirtækja segir Ólafur að sé ríflega hundrað manns.

Ólafur segir ekkert launungarmál að fyrirtækið hafi fjölmörg stór og krefjandi verkefnum á sinni könnu en það vanti fleira fagmenntað fólk. Gjöfin til byggingadeildar VMA undirstriki hversu mikilvægt sé að hlúa sem best að menntun fagmanna, það sé lykilatriði til þess að fá fleiri slíka út á vinnumarkaðinn. Hjá Húsheild og Hyrnu sé lögð áhersla á að nemendur á samningi fái sem víðtækasta reynslu, þeir fái tækifæri til þess að takast á við ólík verkefni og menntun þeirra verði því þegar upp er staðið breið og góð. Ólafur segir mikla áherslu vera á gæðamálin hjá Húsheild og Hyrnu og það sama megi segja um öryggismálin. 

Framangreind gjöf til byggingadeildar samanstendur af tveimur bútsögum (önnur þeirra er rafknúin og hin með hleðslurafhlöðu), þremur vinnuborðum, tveimur hjólsögum, tveimur multisögum, nokkrum verkfæratöskum, tíu rafhlöðum, sex einnar handar þvingum, upphengjum fyrir raflöður o.fl.