Fara í efni

Rafmagnaðir Höfðabræður

Patrik Ingi (t.v.) og Árni Hreiðar Kristinssynir.
Patrik Ingi (t.v.) og Árni Hreiðar Kristinssynir.

Bræðurnir Árni Hreiðar og Patrik Ingi Kristinssynir frá Höfða 2 í Grýtubakkahreppi hafa ekki ósvipuð áhugamál. Þeir eru báðir tæknisinnaðir og því lá beint við að þeir færu í slíkt nám. Og málin æxluðust á þann veg að þeir hafa gengið sömu slóð í náminu í VMA, fóru báðir í raf- og rafeindavirkjun.

Árni Hreiðar, sem er 21 árs gamall, hóf nám sitt í VMA árið 2011 og hefur nú þegar lokið námstíma sínum í rafeindavirkjun og stefnir að því að útskrifast sem rafvirki og stúdent í desember nk. Til þess að verða sveinn í báðum greinum þarf hann að ljúka samningstímanum og á nýju ári fer hann að vinna hjá Rafeyri og tekur þar samningstímann í rafvirkjun. Þar vann hann sl. sumar og hefur einnig unnið með skólanum.

Patrik Ingi, sem er nítján ára gamall, er eðlilega kominn skemmra á veg í náminu. Hann hóf nám sitt í VMA árið 2013 og er eins og bróðir hans að taka bæði rafvirkjun og rafeindavirkjun. Sem stendur er hann í rafeindavirkjuninni en á eftir eina önn af náminu í rafvirkjun.

Þeir bræður eru sammála um að tilviljun ein hafi ráðið því að þeir enduðu í sama náminu í VMA. Árna Hreiðari hafi litist vel á að prófa þetta nám á sínum tíma, enda áhugamaður um tækni og tölvur. Og sama segir Patrik að hafi verið uppi á teningnum hjá sér. Hann hafi ekki haft áhuga á að fara í bóknám eftir grunnskóla, hafi verið búinn að fá nóg af því, og á endanum hafi valið staðið um grunndeild rafiðna eða byggingadeildina í VMA. Rafmagnið hafi orðið ofan á, að einhverju leyti vegna þess að bróðir hans hafi gefið því góð meðmæli. Og einnig hafi haft sitt að segja að hann sé tæknilega sinnaður eins og bróðir hans. Patrik stefnir einnig að því að taka stúdentspróf, enda sé mikilvægt að hafa það í handraðanum ef vilji sé síðar til frekara náms.

Þeir bræður eru sammála um að námið sé gott og sérstaklega hafi rafeindavirkjunin opnað fyrir þeim áður óþekkta leyndardóma tækniheimsins.

Þeir bræður eiga eina yngri systur, Hönnu Valdísi, sem hneigist frekar til bóknáms. Hún valdi að fara í MA og er þar í fyrsta bekk.