Fara í efni

Hluti af Íslandsmótinu í málmsuðu í VMA í dag

Málmsuðukeppnin hefst kl. 13 í VMA í dag.
Málmsuðukeppnin hefst kl. 13 í VMA í dag.

Í dag, föstudaginn 7. október, kl. 13:00 verður blásið til leiks í Íslandsmótinu í málmsuðu í húsnæði málmiðnaðarbrautar VMA. Einn þriðji hluti keppninnar fer fram í VMA í dag en einnig verður keppt á Reyðarfirði í dag og að rúmri viku liðinni, laugardaginn 15. október, í Iðunni fræðslusetri í Reykjavík. Á öllum keppnisstöðum verður keppnin sú hin sama og verða þeir hlutir sem standast sjónskoðun að keppni lokinni í VMA í dag sendir suður og dæmdir þar af dómnefnd eftir kúnstarinnar reglum. Niðurstaða keppninnar liggur síðan fyrir síðla laugardagsins 15. október.

Íslandsmótið í málmsuðu er nú haldið í 23. skipti og verður fyrirkomulag hennar hið sama og á síðasta ári en þá var tekin upp sú nýbreytni að keppa í fjórum suðugreinum í stað sex áður; pinnasuðu PF og PC svart, MAG-suðu PF svart, logsuðu PF og TIG-suðu ryðfrítt H-L045. Einnig geta menn nú tekið þátt í þeim greinum sem þeir kjósa, einni eða fleirum, en Íslandsmeistari í málmsuðu verður sá sem að keppt hefur í öllum fjórum greinum og hlotið flest stig úr þeim samanlögðum. Önnur nýbreytni er að vægi tíma mun verður minna en áður hefur verið en meiri áhersla lögð á gæði suðunnar.

Sigurjón Jónsson, formaður Málmsuðufélags Íslands, sem stendur fyrir keppninni, segir að tilgangur með henni sé að auka metnað og virðingu fyrir málmsuðu á Íslandi. Mikilvægt sé að halda þessari iðngrein á lofti því ekki sé hægt að neita því að hún eigi undir högg að sækja. Staðreyndin sé sú að of fáir málmiðnaðarmenn séu starfandi á Íslandi og því sé mikilvægt að kynna þessa iðngrein með öllum ráðum og ýta undir áhuga á henni. Auk ánægjunnar af því að taka þátt í slíkri keppni sé gott fyrir starfandi málmsuðumenn að sjá hvar þeir standi miðað við kollega sína, það ýti undir metnað þeirra og fjölbreytta þjálfun í greininni.