Fara í efni

Í hörpufjölskyldunni

Mahaut Ingiríður Matharel.
Mahaut Ingiríður Matharel.

Hin daglega dagskrá hjá Mahaut Ingiríði Matharel, nemanda á list- og hönnunarbraut, er þéttskipuð. Auk listnámsins í VMA stundar hún nám við tvo tónlistarskóla, annars vegar lærir hún á hörpu við Tónlistarskóla Kópavogs og hins vegar er hún í söngnámi við Tónlistarskólann á Akureyri.

Mahaut fæddist og ólst upp í Frakklandi. Faðir hennar er franskur en móðirin íslensk og bæði eru þau sellóleikarar og -kennarar. Mahaut fékk því tónlistina beint í æð með móðurmjólkinni og hlutirnir æxluðust þannig forðum daga út í Frakklandi að fimm ára gömul var hún farin að læra á hörpu. Það eru sem sagt tíu ár síðan Mahaut byrjaði að læra á hörpu.

Til tólf ára aldurs bjó hún með fjölskyldu sinni í Frakklandi en flutti þá til Akureyrar. Mahaut rifjar upp að skólakerfið í Frakklandi hafi verið strangt og eilítið kassalaga en sveigjanleikinn í íslensku skólakerfi henti henni betur.

Mahaut segir að hún hafi ekki verið gömul þegar hún var ákveðin í að læra á hörpu. Þegar síðan hún flutti til Akureyrar vandaðist málið því hörpuleikur er einungis kenndur á höfuðborgarsvæðinu. Kennari Mahaut er Elísabet Waage hörpuleikari sem kennir við Tónlistarskóla Kópavogs. Að jafnaði fer Mahaut einu sinni í mánuði suður og tekur námslotu með kennaranum sínum og einnig eru þær í kennslustundum á Skype – Mahaut á Akureyri og Elísabet syðra. Þessar fjarfundakennslustundir þróuðu þær í kóvidfaraldrinum og hafa haldið þeim áfram. Mahaut orðar það svo að hún sé hluti af hörpufjölskyldunni á Íslandi enda eru ekki margir hörpuleikarar eða nemendur í hörpuleik á landinu.

En hvað er það við hörpuna sem heillar? Hljómurinn, segir Mahaut, og fegurð hljóðfærisins. Vegna þess hversu fáir hörpuleikarar eru á landinu er ekki hægt að fara inn í næstu hljóðfæraverslun og spyrja: Get ég fengið eitt stykki hörpu, takk? Nei, svo einfalt er málið ekki því hörpur eru einfaldlega ekki seldar á Íslandi, þær þarf að kaupa í útlöndum. Mahaut á hörpu sem hún keypti í Frakklandi. Og ef svo óheppilega vill til, sem getur auðvitað gerst, að strengir slitna í hörpunni, þá er heldur ekki hægt að fara út í næstu hljóðfærabúð. Strengina þarf líka að kaupa í útlöndum.

Strengirnir í hörpunni eru margir og misjafnlega langir. Allt er þetta eftir kúnstarinnar reglum. Mahaut segir að á vissan hátt megi lýsa hörpunni sem standandi píanói. Og hún segir að hvern streng í hljóðfærinu þurfi að stilla reglulega. Það tekur tíma en það er líka bara hluti af því að spila á hljóðfæri.

Það er með hörpuna eins og önnur hljóðfæri að það þarf að æfa sig vel. Mahaut segist reyna að gefa sér tíma til æfinga á hverjum degi. Dagskráin sé vissulega oft þéttskipuð. Í eyðum í náminu í VMA skjótist hún stundum heim til þess að taka Skype-tíma með Elísabetu hörpukennara og síðan liggi leiðin niður í Tónlistarskólann á Akureyri þrisvar í viku, eftir að kennslustundum lýkur á listnáms- og hönnunarbrautinni í VMA. Allt snúist þetta um að vera skipulögð og nýta tímann vel.

Í þrjú ár hefur Mahaut lært klassískan söng í Tónlistarskólanum á Akureyri. Hún segir að söngnámið nýtist sér mjög vel við að æfa og spila á hörpuna. Krydd í klassíska söngnáminu er söngur Mahaut í rokkhljómsveit sem hún er í með samnemendum sínum í Tónlistarskólanum á Akureyri. Hún segist hafa mikla ánægju af rokkinu og hafi hlustað mikið á gamlar og góðar rokkhljómsveitir, sem stendur séu efst á blaði Pixies, Muse og Radiohead. Áður en Mahaut skellti sér í söngnámið hafði hún lært á trommur og hún segir aldrei að vita nema hún prófi líka gítar eða bassa!

En Mahaut hefur ekki bara verið að spila á hljóðfæri, hún hefur einnig samið tónlist og tvisvar fengið viðurkenningu í tónsmíðakeppninni Upptaktinum.

Laugardaginn 28. janúar sl. steig Mahaut sitt stærsta skref á tónlistarsviðinu til þessa þegar hún spilaði hörpukonsert í B-dúr eftir George Friedrich Händel með Sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna á höfuðborgarsvæðinu, undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar. Mahaut segist ekki geta neitað því að hún hafi verið töluvert stressuð að stíga á sviðið með stórri hljómsveit á mjög vel sóttum tónleikum í Langholtskirkju í Reykjavík enda hafi hún aðeins náð tveimur æfingum með hljómsveitinni fyrir tónleikana. En þegar á hólminn var komið segir hún að tónleikarnir hafi gengið framar vonum og hún sé mjög stolt af sínum hlut í þeim.

En hvernig sér Mahaut framtíðina? Hún segist ætla að halda áfram á sömu braut næstu árin, að ljúka stúdentsprófi af listnáms- og hönnunarbraut VMA og halda áfram í sinni tónlistarsköpun. Hvað þá taki við verði tíminn að leiða í ljós en því sé ekki að neita að harpan heilli.