Fara í efni

Áheitahlaup Heiðars Andra fyrir Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis

Heiðar Andri vígreifur með kók að hlaupinu loknu.
Heiðar Andri vígreifur með kók að hlaupinu loknu.

Einn af þeim sem hljóp 10 km í Vorhlaupi VMA í gær var Dalvíkingurinn Heiðar Andri Gunnarsson, nemandi á félags- og hugvísindabraut VMA. Þetta var í fyrsta skipti sem hann reimar á sig hlaupaskóna og tekur þátt í slíku almenningshlaupi en tilefnið var sérstakt, þetta var áheitahlaup Heiðars Andra í þágu Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis.

„Ég frétti að það væri 10 km hlaup og við strákarnir vorum eitthvað að ræða þetta. Ég hélt að þetta væri nú frekar auðvelt en strákarnir voru mér ósammála, eftir á að hyggja höfðu þeir rétt fyrir sér! En mig langaði til þess að prófa þetta og jafnframt vildi ég hafa einhverja ástæðu fyrir því að hlaupa. Ég ákvað því að efna til áheitahlaups og áheitin myndu renna til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Ástæðan er sú að amma mín greindist nýverið með krabbamein. Ég heyrði því í fjölskyldunni og vinum og það vildu allir leggja þessu lið og heita á mig - og þá gat ég ekki hætt við, ég varð að hlaupa,“ sagði Heiðar Andri sæll og glaður að loknu 10 kílómetra hlaupinu í gær. Á þeim tímapunkti hafði hann safnað áheitum upp á um 160 þúsund krónur og næsta skref sagði hann vera að innheimta áheitin og koma peningunum til Krabbameinsfélagsins. 

„Ég hafði aldrei á ævinni hlaupið áður í svona hlaupi. Ég var í fótbolta þegar ég var yngri, var alltaf heldur latur og hékk frammi, nennti ekki að hlaupa. En núna ákvað ég að slá til og sjá hvernig þetta væri. Og þetta var ógeðslega erfitt, sérstaklega voru fyrstu 3-4 kílómetrarnir erfiðir en síðan hætti ég að hugsa um það hversu erfitt þetta væri og hugsaði með mér að ég yrði að klára þetta, annars væri ég aumingi. Það var ekki flóknara en það,“ sagði Heiðar Andri.

Hólmar Örn, tvíburabróðir hans, er einnig í VMA en hann hljóp ekki og lét duga að hvetja bróðurinn til dáða. Hér eru nokkrar myndir sem voru teknar eftir að Heiðar Andri kom í mark.