Fara í efni

Hlakka til á hverjum degi að mæta í skólann

Þóra Kristín (til hægri) við rennibekkinn.
Þóra Kristín (til hægri) við rennibekkinn.

Óneitanlega eru strákar meira áberandi í véltæknigreinum í VMA, sem eru raunar engin ný tíðindi. Síðastliðið haust hófu sex stúlkur nám í grunndeild málm- og véltæknigreina. Ein þeirra er Þóra Kristín Hafdal Flosadóttir sem er þrjátíu og sex ára gömul. Hún segist hafa látið drauminn rætast og hlakki til hvers skóladags.

„Ég hætti í skóla sextán ára gömul vegna þess að ýmislegt annað en nám heillaði á þeim tíma. Fyrir nokkrum árum var ég síðan í sjúkraliðanámi hér í VMA. Einnig hef ég stundað nám eftir bestu getu í SÍMEY en sl. haust ákvað ég að innrita mig hér í grunndeild málm- og véltæknigreina. Ég finn strax að þetta á vel við mig og það kom mér út af fyrir sig ekki á óvart því ég hef gjarnan unnið í ýmsum störfum sem oft eru flokkuð sem strákastörf. Til dæmis hef ég farið á sjó og unnið á dekkjaverkstæði.  Ég hef lengi starfað í Bílaklúbbnum og hef því haft áhuga á mótorsporti.

Ég neita því ekki að það er mikil áskorun fyrir mig að takast á við þetta nám, enda er ég eftir sem áður í fullri vinnu, starfa í söluskála Olís við Tryggvabraut. Ég byrja því daginn á því að koma hér í skólann og er hér frá kl. 08:00 til kl. 11.20 en þarf síðan að vera mætt í vinnuna í Olís kl. 11.30 og stend vaktina til kl. 20:00 á kvöldin. Dagarnir eru því langir og strangir og þetta er vissulega afar krefjandi fyrir mig, einstæða móður með þrjú börn. En engu að síður er þetta meira en þess virði og sannast sagna sé ég mest eftir því að að hafa ekki tekið þetta skref fyrir löngu síðan. Ég hlakka til þess að mæta í skólann á hverjum morgni. Námið er áhugavert og kennararnir frábærir,“ segir Þóra Kristín og stefnir ótrauð að því að halda áfram eftir að grunnnáminu lýkur. Hvaða nám verður fyrir valinu á eftir að koma í ljós en Þóra Kristín segir að vélstjórnin sé ein þeirra greina sem komi til til álita.

Hér má sjá nokkrar myndir úr kennslustund í rennismíði hjá Herði Óskarssyni í grunndeild málm- og véltæknigreina. Hér er vandað til verka og áhuginn leynir sér ekki.