Fara í efni

Hlaðvarp VMA komið í loftið

Hljóðvarp VMA er komið í loftið.
Hljóðvarp VMA er komið í loftið.

Það er komið að því. Fyrsti þáttur splunkunýs Hlaðvarps (e. Podcast) VMA er kominn í loftið. Pétur Guðjónsson viðburðastjóri VMA hefur verið að vinna að því að koma þessu á koppinn núna á haustönn og gamall draumur er nú orðinn að veruleika. Pétur hefur umsjón með fyrsta þættinum.

Pétur orðar það svo að grunnhugmynd hlaðvarpsins sé að nota þennan miðil til þess að fjalla um allt milli himins og jarðar í samfélaginu VMA, sem sannarlega er stórt samfélag með á annað þúsund nemendur í dagskóla og fjarnámi og á annað hundrað starfsmenn. Í slíku samfélagi gerist margt skemmtilegt sem ástæða er til að fjalla um og tæknin til þess að búa til slíkt efni og koma því á framfæri á öldum ljósvakans er alltaf að verða einfaldari.

Að því er stefnt að Hlaðvarp VMA verði með vikulega þætti. Pétur segist vonast til þess að það verði mögulegt en til þess þurfi allir að leggjast á eitt, bæði nemendur og starfsfólk.

Upptökutæknin er fyrir hendi, þökk sé Hollvinasamtökum VMA, sem hafa lagt þessu verkefni lið með myndarlegum hætti. Nú er að nýta tæknina og búa til skemmtilegt efni, sem getur verið allt á milli himins og jarðar.

Þeim sem hafa áhuga á að spreyta sig í Hlaðvarpi VMA er velkomið að setja sig í samband við Pétur Guðjónsson. Einnig er um að gera að líka við fb.síðu hlaðvarpsins og í gegnum hana er hægt að hafa samband.

Pétur segir að það muni taka tíma að kynna þessa nýjung en í þessu sé sígandi lukka best, Róm hafi ekki verið byggð á einni nóttu og það sama eigi við um Hlaðvarp VMA. Það muni þróast og taka breytingum þegar fram líða stundir. En hálfnað er verk þá hafið er, segir máltækið, og það á svo sannarlega vel við þessa nýjung í skólastarfinu í VMA. Nýr og áhugaverður upplýsingamiðill skólans er kominn í loftið.