Fara í efni

Hjartadrottningin Sigríður Erla

Sigríður Erla í leikmynd Lísu í Undralandi.
Sigríður Erla í leikmynd Lísu í Undralandi.

„Ég hef haft mikla ánægju af því að leika hjartadrottninguna. Hún er stjórnsöm, frek og tilfinningarík,“  segir Sigríður Erla Ómarsdóttir, nemandi á listnáms- og hönnunarbraut VMA, sem fór með hlutverk hjartadrottningarinnar í uppfærslu Leikfélags VMA á Lísu í Undralandi. Síðuutu sýningar á leikritinu voru um helgina.

Sigríður hóf nám í VMA haustið 2019 og hellti sér strax í leiklistina. Lék bæði í uppfærslu Leikfélags VMA á Tröllum og einnig var hún á sviðinu í Grís í fyrra. Og nú tókst hún á við krefjandi hlutverk hjartadrottningarinnar í Lísu. „Þó svo að ég hafi alltaf haft ánægju af því að leika fylgir því alltaf smá stress að koma fram og þó að Lísa sé þriðja leikritið sem ég hef tekið þátt í VMA er stressið alltaf til staðar. En það er bara í fyrstu senunni, síðan dettur maður inn í hlutverkið og nýtur þess að leika,“ segir Sigríður.

„Ég ólst upp á Dalvík og var þar í grunnskóla, tók þátt í skólaleikritum og hafði strax gaman af því að leika. Ég sótti m.a. Leiklistarskóla LA á Akureyri og hef því lengi haft áhuga á þessu. Eins og staðan er núna væri ég til í að starfa í leiklistinni og stefni á að fara í Listaháskólann eftir námið hér,” segir Sigríður og bætir við að með því að fara í VMA hafi hún horft til þess að slá tvær flugur í einu höggi; læra myndlist og taka þátt í leiklistarstarfinu í skólanum. „Þetta hefur verið virkilega skemmtilegt og ég hef eignast mína bestu vini í náminu og leiklistarfinu hérna í skólanum,“ segir Sigríður og bætir við að hún stefni að því að ljúka náminu í VMA í árslok.

Þessa dagana má sjá akrílverk á vegg gegnt austurinngangi VMA eftir Sigríði Erlu, sem hún málaði í akrílmálunaráfanga hjá Björgu Eiríksdóttur á haustönn 2021. Verkið kallar hún Blámi. „Í byrjun var ég alveg tóm með hugmyndir sem svo fór ég að skissa og verkið þróaðist í þessa átt, með manneskju og fljótandi eyjar. Ég ákvað að grunnliturinn yrði blár enda er hann minn uppáhaldslitur,“ segir Sigríður Erla Ómarsdóttir.