Fara í efni

Hinsta kveðja - Páll Hlöðvesson

Páll Hlöðvesson (ljósm. HIF)
Páll Hlöðvesson (ljósm. HIF)

Í dag var kveðjuathöfn í Akureyrarkirkju þar sem við kvöddum samstarfsmann til margra ára, Pál Hlöðvesson. Palli, eins og hann var alltaf kallaður af samstarfsfólki og flestum nemendum líka, hafði starfað við skólann í rúmlega 20 ár. Hann kenndi aðallega stærðfræði og vélstjórnargreinar. Palli var yfirleitt sá sem var fyrstur mættur á kennarastofuna á morgnana og alltaf tilbúinn að ræða það sem var að gerast á hverjum tíma. Við höfum mörg átt góðar rökræður við Palla í gegnum tíðina um allt milli himins og jarðar enda var Palli með sterkar skoðanir á mönnum og málefnum. Palli var einnig mikill áhugamaður um íþróttir og fylgdist vel með því sem var að gerast í íþróttum. Hann fylgdi barnabörnum sínum eftir í þeirra íþróttaiðkun en eins fylgdist hann vel með árangri nemenda sinna sem voru í íþróttum. Palla lá hátt rómur í kennslustundum og það fór aldrei á milli mála hvar Palli var að kenna. Hann bar mikla umhyggju fyrir nemendum sínum en gerði jafnframt miklar kröfur til þeirra. 

Palli lét af störfum vegna aldurs vorið 2015 og lést nú í byrjun ágúst eftir stutt veikindi. Samstarfsfólk þakkar samfylgdina með Palla og vottar aðstandendum samúð sína. Blessuð sé minning Páls Hlöðvessonar. 

f.h. hönd samstarfsfólks í VMA, Sigríður Huld skólameistari

 

Hálfdán Örnólfsson kennari og samstarfsmaður Palla í VMA í rúmlega 20 ár skrifaði eftirfarandi minningarorð um Palla.  

Ég kynntist Páli Hlöðvessyni fyrst fyrir um það bil þremur áratugum. Það var á vettvangi stjórnmálastarfs. Nokkrum árum síðar þegar Páll eða Palli eins og ég kýs að kalla hann hóf störf við Verkmenntaskólann á Akureyri, fórum við að umgangast meira og tókst með okkur góður vinskapur.

Við unnum saman við skólann frá og með árinu 1991 þar til Palli lét af störfum vorið 2015. Palli var skipatæknifræðingur að mennt og hafði numið það fag í Danmörku. Hann starfaði lengi sem slíkur bæði sjálfstætt og hjá Slippstöðinni á Akureyri. Árið 1991 gerði hann svo kennslu að sínu aðalstarfi. Við áttum býsna náið samstarf enda kenndum við að nokkru leyti sömu fögin og í mörg ár deildum við bás í vinnuaðstöðu kennara þar sem við áttum marga skrafstund. Palli var mikill ljúflingur og gott að leita til hans með ýmislegt. Hann var boðinn og búinn að leysa hvers manns vanda og gilti þá einu hvort í hlut áttu nemendur eða samstarfsfólk. Palli var metnaðarfullur kennari og mikill nákvæmnismaður, líkt og sæmir kennara í stærðfræði og raungreinum, og gegndi um tíma stöðu fagstjóra í stærðfræði. Líklega hefur honum stundum blöskrað flumbrugangurinn í mér og fleirum úr hópi samstarfsfólksins en þó að hann ætti það til að býsnast yfir einu og öðru þá var sú orðræða yfirleitt með gamansömum undirtóni. Nákvæmnin hjá Palla var annars fremur góðrar náttúru. Hún snerist fyrst og fremst um rökhugsun en minna um það að hafa einhverja yfirdrifna röð og reglu á hlutunum. Skrifborðið hans Palla var í dásamlegri óreiðu sem hentaði mér vel því að ég er litlu skárri.

Palli lét af störfum við Verkmenntaskólann vegna aldurs vorið 2015 en samstarf okkar hélt áfram á öðrum vettvangi. Hann hafði átt við hjartavandamál að stríða í mörg ár og þegar ég fann fyrir slíkum krankleika vorið 2012 atvikaðist það svo að við, sem báðir nýttum þjónustu HL-stöðvarinnar á Akureyri, vorum farnir að stússa í félagsmálum og stjórnun í tengslum við hana. Palli sat aðalfund HL-stöðvarinnar síðastliðið vor þá orðinn mikið veikur. Hann var óbilandi félagsmálatröll og lét til sín taka á mörgum slíkum vettvangi í gegnum árin.

Palli hélt upp á sjötugsafmælið sitt eitt fagurt sumarkvöld 2015 með veglegri veislu. Þá var ekki að sjá annað en að nú tæki við notalegur tími með fjölskyldu og vinum þar sem að hann gæti notið afraksturs langrar starfsævi. Örfáum mánuðum síðar kom reiðarslagið. Það kemur í ljós að hann er með krabbamein í lunga og að það er lítil von um lækningu.

Ég heimsótti Palla í vikunni fyrir andlát hans og við röbbuðum saman í dágóða stund. Það var mjög af honum dregið og ljóst í hvað stefndi en hann bar sig ótrúlega vel og sló jafnvel á létta strengi. Að lokum bað hann mig fyrir kveðju til samstarfsfólksins í VMA.

Ég sakna Palla mjög. Við áttum langt og gott samstarf Það er sárt til þess að hugsa að hann skuli ekki hafa fengið að njóta ævihaustsins betur og lengur. Við Hugrún færum Hannveigu og fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.

Hálfdán Örnólfsson