Fara í efni

Hildur og Jóhannes á fjarfundi í VET4Change

Hildur og Jóhannes sátu fjarfundina á bókasafninu.
Hildur og Jóhannes sátu fjarfundina á bókasafninu.

Ekki þarf að hafa um það mörg orð að kórónuveirufaraldurinn hefur sett strik í reikninginn á óteljandi mörgum sviðum. Verkmenntaskólinn hefur til fjölda ára tekið virkan þátt í erlendum samstarfsverkefnum og gerir það enn, þó unnið sé að verkefnunum með öðrum hætti en ætti að vera.

Í liðinni viku hófst nýtt Erasmus + verkefni sem VMA tekur þátt í, sem nefnist VET4Change Til stóð að fulltrúar aðildarlandanna í verkefninu hittust á fundi í Brussel í Belgíu en af því gat ekki orðið vegna kórónuveirunnar en þess í stað var tveggja daga fjarfundur sem Hildur Friðriksdóttir, sem heldur utan um erlendi samskipti í VMA, og Jóhannes Árnason kennari sátu. Hildur og Jóhannes voru á bókasafni VMA og komu sjónarmiðum sínum á framfæri í tölvusambandi við fulltrúa aðildarlandanna sem eru auk Íslands Frakkland, Slóvenía, Króatía, Belgía, Rúmenía og Eistland.

Hildur Friðriksdóttir segir að þetta verkefni sé í raun framhald á verkefni sem VMA tók þátt í fyrir nokkrum árum og hét InnoVET - Innovative VET devices in rural areas. Í verkefninu sé sjónum fyrst og fremst beint að tengslum verknáms og byggðaþróunar í þátttökulöndunum. Hildur segir að til hafi staðið að verkefnið, sem er stýrt frá Frakkandi, myndi taka tvö ár en líklegt verði að telja að vegna kórónuveirufaraldursins spanni það þrjú ár.

Áðurnefndum tveggja daga fjarfundi í síðustu viku lauk með því að fulltrúar þeirra stofnana sem taka þátt í verkefninu sögðu á sínum móðurmálum stuttlega frá verkefninu og þeim væntingum sem þeir hefðu til þess. Hér má sjá þetta youtube myndband. Á 07:07 mín segir Hildur Friðriksdóttir í nokkrum orðum frá því hvernig þetta verkefni horfi við henni og VMA.