Fara í efni

Hér vil ég búa og starfa

Oksana Mitrushkina.
Oksana Mitrushkina.

Oksana Mitrushkina, sem kemur frá Úkraínu, stundar nám á þriðju önn í hársnyrtiiðn í VMA. Hún kom til landsins fyrir tveimur árum til að heimsækja vini og kynna sér land og þjóð. En dvölin varð lengri en gert var ráð fyrir og nú er hún gift kona á Akureyri.

Oksana kemur frá Kremenchuk í Úkraínu, sem er rúmlega 200 þúsund manna borg um mitt land. Kremenchuk er á vissan hátt miðstöð iðnaðar og vöruflutninga í Úkraínu. Staðsetning borgarinnar í miðri Úkraínu gerir það að verkum að um hana fara miklir þungaflutningar í lestum og hjá slíku lestarfyrirtæki starfaði Oksana í ýmsum þjónustustörfum og einnig spreytti hún sig í hársnyrtiiðn áður en hún kom til Íslands.

Enn sem komið er hefur Oksana ekki fengið heimild fyrir sjö ára son sinn til að koma til Íslands. Hann er því enn í Úkraínu og býr til skiptis hjá foreldrum hennar og föður sínum, barnsföður Oksönu. Hún bindur vonir við að áður en langt um líður fái sonur hennar leyfi til þess að koma til Akureyrar en málin séu alltaf flóknari þegar um sé að ræða lönd utan Evrópusambandsins.

Á Akureyri býr Oksana með eiginmanni sínum, sem er frá Lettlandi og starfar við húsasmíði á Akureyri. Hún segist kunna því vel að búa á Akureyri, bærinn sé hrein paradís. Hér sé fólk með gott hjarta og hafi tekið sér vel, hér sé hreint loft, hreint vatn, gott húsnæði og einstaklega falleg náttúra. Hún gerir lítið úr skrykkjóttu veðri á Íslandi, í Úkraínu sé einnig vetur. Framtíð sína sér Oksana á Íslandi og einnig sér hún bjarta framtíð fyrir ungan son sinn hér á landi.

Á liðnu hausti ákvað Oksana að freista gæfunnar og skrá sig í hársnyrtiiðn í VMA. Í Úkraínu hafði hún tekið nokkur námskeið í ýmsu er lýtur að faginu, t.d. klippingu, litun o.fl. og vann í faginu um tíma. Þessa þekkingu fékk Oksana metna inn í námið í VMA og innritaðist á þriðju önn í hársnyrtiiðn. Þar er hún í góðum höndum Hildar Salínu Ævarsdóttur og Hörpu Birgisdóttur. Oksana segist ekki eiga orð til að lýsa þakklæti sínu yfir öllum þeim stuðningi og hjálp sem hún hafi fengið frá Hildi og Hörpu, það fái hún seint fullþakkað. „Ég hef lofað kennurunum mínum að standa mig sem best í náminu og við það loforð ætla ég að standa,“ segir Oksana. Hún segir að þekkingin sem hún hafi aflað sér í Úkraínu komi sér vel í náminu í VMA en stærsta fyrirstaðan sé tungumálið. Hún sé komin skammt áleiðis í íslenskunni og enskukunnátta hennar sé heldur ekki mikil. Því hafi Google Translate komið sér vel í samskiptum við kennarana og aðra og stundum, þegar miðla þurfi einhverjum flóknum hlutum, leggi Veronika Lagun, íþróttakennari við Síðuskóla á Akureyri, sér lið, en hún er frá Litháen og talar reiprennandi rússnesku, eins og Oksana. Veronika var einmitt túlkur í  spjallinu sem þessi grein byggir á.

Oksana segir að ágætlega gangi með verklega hlutann í náminu en erfiðara sé með verkefni þar sem skila þarf rituðum texta. Enn sem komið er sé íslenskan henni fyrirstaða, hún hafi þegar tekið tvö grunnnámskeið í íslensku en betur má ef duga skal. Vegna Covid 19 hafi námskeiðin farið fram í gegnum tölvu, sem sé aldrei jafn gott og að geta verið á staðnum og hitt kennarann í eigin persónu. En hún huggi sig við að íslenskukennarinn hafi látið þau orð falla að það væri alveg sérstaklega gott ef nemendur sem hafi aldrei lært íslensku geti talað nokkur orð í málinu á þriðju eða fjórðu önn!

Oksana er 38 ára gömul og því töluvert eldri en skólasystur hennar á þriðju önn í hársnyrtiiðninni. Hún segir aldursmuninn ekkert vandamál, henni finnist mjög skemmtilegt að læra með mun yngri samnemendum. En hver eru framtíðaráform Oksönu? Það er einfalt, segir Oksana, hana langar til þess að ljúka náminu í VMA og fá starfsréttindi í hársnyrtiiðn og starfa við hana hér á landi. Á Íslandi vilji hún búa og starfa.