Fara í efni

Hér er ég á heimavelli

Sigþór Veigar Magnússon við akrílverkið sitt.
Sigþór Veigar Magnússon við akrílverkið sitt.

Hafið er sem hinn rauði þráður í gegnum akrílverk Sigþórs Veigars Magnússonar, nemanda á listnámsbraut VMA, sem gefur að líta þessa dagana við austurinngang skólans, gegnt skrifstofunni. Það kemur ekki á óvart því Sigþór segist lengi hafa verið upptekinn af hafinu og þeim fjölbreytileika sem það býr yfir. „Í verkinu endurspeglast ákveðin nostalgía,“ segir Sigþór um verkið. Þar má sjá fjölmargt sem minnir á hafið eins og til dæmis fiska, kóralla og margt fleira. Verkið er óvenju stórt - 180 x 180 cm.

Til sex ára aldurs bjó Sigþór með fjölskyldu sinni á höfuðborgarsvæðinu en fluttist þá til Akureyrar og hefur verið þar síðan. Sigþór var í Brekkuskóla og þar kom fljótt í ljós áhugi hans á að teikna. Kennari hans í myndmennt, Joris Rademaker, ýtti undir áhugann og úr varð að Sigþór hélt sína fyrstu sýningu sem lokaverkefni í Brekkuskóla.

Það kom því ekki á óvart að Sigþór valdi að fara á listnámsbraut VMA og segir hann að í raun hafi ekkert annað komið til greina. „Hér er ég algjörlega á heimavelli,“ segir hann þegar spurt er hvernig námið hafi komið honum fyrir sjónir.

Auk þeirrar myndlistar sem Sigþór skapar í VMA deilir hann með fleiri ungmennum vinnuaðstöðu í Rósenborg og hélt þar í tvígang sýningar á síðasta ári.

Þrátt fyrir mikla ástríðu fyrir myndlist segist Sigþór ekki hafa í huga að fara í frekara myndlistarnám að loknu listnáminu í VMA. Frá blautu barnsbeini hafi hann haft mikinn áhuga á kvikmyndum og þann áhuga langi hann til þess að virkja til kvikmyndanáms utan landssteinanna. Námið á listnámsbraut VMA segir hann að eigi án nokkurs vafa eftir að nýtast sér vel í kvikmyndanáminu.