Fara í efni

Heimsókn samstarfsaðila VMA í InnoVET

Dagana 8.-10. mars fór fram þriði fundurinn í verkefninu InnoVET hér í VMA en það hófst í október á liðnu ári í Brussel og annar fundurinn var í nóvember í Figeac í Suður-Frakklandi. Alls eru sjö fundir áætlaðir í verkefninu. Samstarfsaðilar VMA í InnoVET eru frá Frakklandi, Belgíu, Rúmeníu, Slóveníu, Litháen og Reunion-eyju í Indlandshafi og eru flestir þeirra frá skólum eða stofnunum sem halda úti einhvers konar starfsnámi eða starfsþjálfunarkerfum. Einnig taka þátt í verkefninu samtök sem sinna frumkvöðla- eða nýsköpunarstarfi. Heimsóknin hófst með samráðsfundi og síðan fóru þátttakendur um VMA og kynntu sér starfsemi skólans. Síðar sama dag lá leiðin í Fjölsmiðjuna og norður í Fjallabyggð, þar sem m.a. var farið í heimsókn í Menntaskólann á Tröllaskaga í Ólafsfirði. Þann 9. mars fór fram málstofa í VMA þar sem Akureyrarstofa, Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar, Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri og MS á Akureyri kynntu atvinnulíf á svæðinu og þær áskoranir sem svæðið stendur frammi fyrir í atvinnulegu tilliti. Eftir hádegi sama dag var svo farið í heimsókn í Símey þar sem þátttakendur fengu kynningu á starfseminni. Dagskráin endaði 10. mars með samsráðsfundi þar sem farið var yfir helstu atriði heimsóknarinnar og lögð drög að næsta fundi verkefnisins sem mun fara fram í Rúmeníu í vor.